01.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1161 í B-deild Alþingistíðinda. (1363)

25. mál, vegamál

Ólafur Briem:

Mér þykir það einkennilegt hjá háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. J.) að vilja fella málið frá nefnd. Hann bar það fyrir, að ákvæði 1. gr. frumvarpsins væru óheppileg. En eg hefi jafnan heyrt, að það væri sérstök ástæða til nefndarskipunar, að einhver ákvæði frv. væri óheppileg og þyrftu lagfæringar.

Eg er samþykkur hinum háttv. meðflutnm. mínum (S. S.) að allmikil réttarbót felist í 2. gr. frv. og hygg að hann hafi leitt rök að því. 3. og 4. gr. eru minna virði, en hafa þó þá þýðingu, að minka starf hreppsnefndanna og gera það brotaminna, bæði að því er snertir reikningsfærslu og innheimtu hreppsvegagjalds. Það er óþarft að gera mönnum sem örðugast fyrir með innheimtu opinberra gjalda.

Oss flutningsmönnum kom saman um að hafa eitt frv. um þetta, heldur en að skifta því í tvent.

Það er og þýðingarmikil breyting, sem felst í 5. gr. frv., að nema úr gildi 55. gr. vegalaganna. Eg skal með leyfi hæstv. forseta leyfa mér að lesa upp 55. gr. Hún hljóðar svo:

»Verzlunarstaðir, sem eru hreppsfélög út af fyrir sig, skulu lausir við að greiða þann þriðjung sýslusjóðsgjaldsins, sem þeim annars bæri að greiða eftir tölu verkfærra karlmanna þar, ef hreppsfélagið ver árlega til vegagerðar í verzlunarstaðnum að minsta kosti jafnmiklu fé úr sveitarsjóði, auk hreppsvegagjaldsins, sem þessi þriðjungur sýslusjóðsgjaldsins mundi nema«.

Mig undrar stórum, að þessi grein skuli hafa komist inn í vegalögin, því að þar með sleppa kaupstaðir, sem eru hreppsfélög fyrir sig, næstum algerlega við að greiða sýslusjóðsgjald. Í fæstum kaupstöðum er sem sé sýslusjóðsgjald að nokkrum mun greitt af öðrum gjaldstofnum en verkfærra tölu, því að í kaupstöðum er ekki að ræða um fasteignir né heldur um lausafé svo nokkru nemi. Af þessu hlýzt það, að verzlunarstaðirnir sleppa sama sem algerlega við sýslusjóðsgjaldið.

Það er sérstaklega þetta atriði, sem veldur því, að eg styð frv. og nefndarskipun í málið, þótt eg sé ekki samþykkur 1. gr.