01.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1163 í B-deild Alþingistíðinda. (1365)

25. mál, vegamál

Eggert Pálsson:

Eg skil ekki annað en að háttv. flutningsm. hafi fært næg rök fyrir frumv. þessu, að minsta kosti svo mikil að því yrði ekki styttur aldur strax, heldur fengi að minsta kosti að komast í nefnd. Að vísu veit eg, að 1. gr. frumvarpsins muni mörgum þyrnir í augum, en 2. og 5. gr. hafa þó án efa frá sjónarmiði mjög margra þingmanna svo bráðnauðsynleg ákvæði að geyma, að það væri hið mesta óhapp, ef frumvarpið félli nú þegar í stað. Þótt 1. gr. frumv., eins og hún nú er orðuð kunni að líta illa út í augum margra, þá ætti að vera hægt að umbæta hana svo, að allir gætu vel við unað. Mér fyrir mitt leyti hefir aldrei til hugar komið, að sú grein yrði samþykt óbreytt, með því að eg get ekki búist við, að stefna þingsins sé svo gerbreytt frá því sem átti sér stað þegar vegalögin voru búin til. Og mér er það sjálfum kunnugt, hversu allar umbætur á vegalögunum, að því er þessi héruð snertir, áttu þá erfitt uppdráttar.

Fyrsta grein frumvarpsins, eins og hún nú er orðuð, byggist á þeirri skoðun, sem allir hljóta að viðurkenna að hafi mjög mikið til síns máls, að landssjóði beri skylda til að viðhalda góðum landvegi, ekki að eins austur að, heldur austur um þessar sýslur, sem hér eiga hlut að máli, vegna þeirra sérstöku staðhátta, að þær geta ekki haft not af strandferðunum, sem landssjóður leggur svo mikið fé til. En þótt menn vilji ekki ganga svona langt, þá verða þó allir að ganga inn á þá skoðun, að samband verði að vera eftir góðum vegi á milli þessara sýslna og Reykjavíkur, án þess að þessar sýslur kosti það sjálfar sérstaklega, því það samband er ekki síður nauðsynlegt fyrir Reykjavík en þær. En þetta samband er í raun og veru ekki til nema góður akfær vegur sé frá Reykjavík og austur að hinum eiginlegu flutningabrautum þessara sýslna, sem ganga út frá Eyrarbakka og Stokkseyri upp og austur, þar eð þessar sýslur verzla þar mest, að minsta kosti með alla þungavöru. Ef því Reykjavík sleppur alveg við viðhald þessa vegar, þá er og sjálfsagt að láta héruðin, sem eru við hinn enda hans einnig sleppa, en landssjóður aftur á móti hlaupi undir baggann. Landsjóður ætti því að sjálfsögðu að kosta viðhald vegarins héðan og austur að Ölfusá, í stað þess að nú kostar hann að eins viðhaldið austur að Reykjaréttum, svo að eftir er að eins spottakorn — yfir sjálft Ölfusið — að saman nái við hinar eiginlegu flutningabrautir þessara sýslna. Eg tel það því líklegt, að öllum gæti þótt sanngjarnt, að alt viðhald brautarinnar austur að vegamótum Grímsnesbrautarinnar hvíldi á landssjóði. Og yrði það lögleitt, þá gætu Rangæingar jafnframt losnað við þá skyldukvöð, að halda Flóabrautinni við að ? hluta, því einmitt það ákvæði vegalaganna, er ýkja óvinsælt og hefir valdið einna mestu um óánægju manna í Rangárvallasýslu með vegalögin, eins og þau eru, því menn telja það sem vonlegt er hina mestu fjarstæðu, að vera lögskyldaðir til að leggja fram fé til viðhalds vegum í annari sýslu, þegar jafn auðveldlega verður hjá því komist og hér á sér stað. Eg vona því að nefnd verði skipuð í málið og að henni takist að gera slíkar umbætur á frumvarpinu, að bæði hin háttv. deild geti sætt sig við það og hlutaðeigandi héruð telji það þó nokkrar umbætur frá því ástandi sem nú er.