01.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1167 í B-deild Alþingistíðinda. (1369)

25. mál, vegamál

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Eg stend ekki upp til að mótmæla því, að nefnd verði skipuð í þetta mál, eg er þvert á móti samdóma háttv. 1. þm. Skagf. (Ó. Br.) um það, að margt í frv. er þess vert, að það verði athugað af nefnd. Það eru nú 30 ár síðan eg varð þingmaður, og minnist eg þess, að þegar á fyrstu þingárum mínum og oft síðan kom fyrir alþingi beiðni frá héruðunum austanfjalls um brýr og vegi, sem kæmu þeim í betra samband við Reykjavík. Og svo nauðsynlegt þótti þeim þá þetta samband, að þeir buðust til að standa straum af öllum kostnaði við viðhald á brúnum. Eg studdi þá þessa málaleitun, því að mér fanst, að þessi héruð hefði orðið út undan, að því er til samgöngubóta kom, vegna hafnleysisins. En nú segja fulltrúar þessara sýslna, að vegirnir séu eingöngu í þágu Reykvíkinga og að viðhaldskostnaður sá, sem á sýslufélögunum hvílir, sé ranglátur vegna þess, að vegirnir séu ekki til nauðsynja fyrir sýslurnar. En reka ekki Árnesingar og Rangæingar naut sín og kindur eftir vegunum til slátrunar í Reykjavík? Og flytja þeir ekki smjör sitt og ull og aðrar búsafurðir eftir vegunum til Reykjavíkur, og það ekki til að selja það hér, heldur til að koma því áleiðis til útlanda? Ef það er satt, að vegirnir séu sýslunum ónauðsynlegir, þá er alls ekki vert að vera að halda þeim við, því að Reykjavík þarf sannarlega ekki á þeim að halda; hún er sjálfri sér nóg og hefir ærið uppland annað. Reykjavík gerði það ekkert til, þótt himinhár múr girti þessar frjóu sýslur af frá öllum samgöngum við hana. Hún þarf ekki á þeim að halda — getur fengið allar nauðsynjar sínar annarsstaðar að. Mér finst í meira lagi ósanngjarnt að demba þessum kostnaði á landssjóð, enda mundi það draga dilk á eftir sér, því að fleiri sýslur mundu fara á eftir, þar sem svipað er ástatt með vegi. Eg vona að nefnd verði skipuð til þess að athuga frumv. og að henni takist að hreinsa úr því alla hreppapólitík.