21.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1180 í B-deild Alþingistíðinda. (1400)

48. mál, stýrimannaskólinn

Bjarni Jónsson:

Þetta frumv. er komið hingað frá háttv. Ed., hefir náð samþykt þar og gengið þegjandi og nefndarlaust gegnum 1. umr. hér. Eg get nú ekki sagt, að eg hafi athugað það svo nákvæmlega, að eg sé viss um að geta sýnt, hver þörf sé á nefndarskipun í það, en þó vildi eg minnast nokkuð á reikningskunnáttuna, sem heimta á í skólanum. í 2. gr. frv. er kveðið svo á, að nemendur þeir, er taka vilja hið minna stýrimannapróf, skuli kunna almenn brot, tugabrot, hlutföll talna, notkun logarithma, (eða tugvita) grundvallaratriði flatarmálsfræðinnar og útreikning rétts þríhyrnings eftir þríhyrningafræðinni. En til hins meira prófs er meðal annars heimtuð þekking á veldi og rót, og reikningi með játandi og neitandi stærðum. Eg get ekki betur séð, en að það sé alveg nauðsynlegt, að bera skyn á veldi og rót, áður en farið er að reikna með logarithmum, því að það vita allir, sem reikning kunna, að »logarithmus«, eða tugviti, er ekki annað en veldisvísir, þar sem grunntalan er 10. Þeir, sem taka hið minna próf, hefðu því gott af að vita eitthvað um veldi og rót, áður en þeir fara að nota logarithma. Sama er að segja um játandi og neitandi stærðir, því að ef þeir fara út í mælingu rétthyrndra þríhyrninga, þá þurfa þeir líka að þekkja sinus og cosinus, tangens og cotangens o. s. frv., eða með öðrum orðum grundvallarsetningar þríhyrningafræðinnar.

Eg veit nú ekki, hvort öllum háttv. þm. eru þessi atriði fullljós, en eg get fullvissað menn um að það er alveg ógerningur að kenna sumt af því, sem heimtað er til minna prófsins, ef nemendurnir eiga ekki að þekkja »positivar« og »negativar« stærðir. Mér er kunnugt um þetta, því að eg hefi einmitt kent þessa grein við þennan sama skóla, og það ætti líka öllum að vera ljóst, að eigi tjáir að reyna að skýra fyrir mönnum mælingu þríhyrnings, nema þeir viti áður í höfuðatriðunum allra einföldustu undirstöðuatriði þríhyrningafræðinnar.

Eg vil því leyfa mér að stinga upp á 5 manna nefnd, til þess að þetta gangi ekki alveg athugalaust í gegnum deildina.