16.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1186 í B-deild Alþingistíðinda. (1409)

49. mál, dánarskýrslur

Benedikt Sveinsson:

Þetta mál hefir nú legið fyrir þinginu öðruhverju í 20 ár, og bendir það á, að ekki hafi það vinsælt verið. Og enn er það ekki orðið gleggra en svo, sem sjá má á þessu frumv. Háttv. 1. þm, Húnv. (H. G.) benti á það, að frumv. er óljóst í ýmsum greinum. Það hefir verið talað um ákvæðið í 1. grein, um það, að ef maður deyr skuli vitja læknis innan sólarhrings, ef kostur er o. s. frv. En það er ekkert talað um það, hvernig fer, ef þess er ekki kostur. Nú er fengin sú skýring á þessu frá háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.), að ef þess sé ekki kostur, þá varði það engri hegningu. En eg get ekki verið honum samdóma um þetta, því einsog frv. er orðað, þá er beint bannað að jarðsetja lík í þeim sóknum, þar sem læknir á heima, ef ekki hefir náðst í hann innan sólarhrings frá því maðurinn deyr. Þetta getur þrásinnis viljað til, einkum þegar mannskæðar farsóttir ganga, einsog oft kemur fyrir hér í landi, þá hafa læknar oft svo mikið að gera, að þeir mega hvergi nærri vera að því, að vitja allra þeirra, sem sjúkir eru, hvað þá hinu, að taka á sig langa króka til þess að vitja dauðra manna. Yfir höfuð finst mér frv. þannig úr garði gert, að það muni alls ekki ná tilgangi sínum. Eg veit að það er æskilegt, að fá nákvæmar dánarskýrslur, en þær fást alls ekki með þessu. Það er mest á valdi læknanna sjálfra, að gefa skýrslur, þeim er kunnugt um heilsufar manna, og geta fengið kostnaðarlaust skýrslur um banamein manna hjá hlutaðeigandi sóknarprestum, án þess að þessu lík skilyrði séu sett í lög. Slíkt getur ekki náð nokkurri átt, og er að mínu áliti ekkert annað en skrípaleikur. Annars er mér illa við þessa margbrotnu skriffinsku, sem þrásinnis er verið að leiða í lög til þess að íþyngja almenningi, og það er hart að geta ekki einu sinni komið líki í jörðina án hennar. Þjóðin er orðin margleið á henni, svo að þingið ætti að hægja á sér með þesskonar lagasmíð, ekki sízt um jafn óveruleg atriði og hér er um að ræða.

Eg legg því til, að frumvarp þetta verði felt, eins og gert hefir verið að minsta kosti 5 sinnum áður.