10.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1192 í B-deild Alþingistíðinda. (1424)

30. mál, laun sóknarpresta

Eggert Pálsson:

Það gleður mig mikið, að þetta frv. hefir komið fram, því það er bein sönnun þess, að spá mín 1907 að ákvæðin í lögunum frá 16. nóv. 1907 nr. 46 um það, að skifta skyldi öllum prestum landsins með tilliti til launa í 3 algerlega jafna flokka, mundi reynast óhentugt. Þegar þau lög lágu hér fyrir þinginu, kom eg með tillögu, sem gekk alveg í sömu átt og breyting sú, sem hér er farið fram á, sem sé að miða launin beint við embættisaldur. Þá var að vísu orðið áliðið þingtímans og hefði þurft að senda málið aftur til Ed., en það sem aðallega aftraði því, að mín brtill. kæmist þá að var það, að Ed. eða sérstaklega nefndin þar var henni andvíg. En nú virðast allir viðurkenna, að breyting mín hafi verið sanngjörn og réttmæt, og það gleður mig. Jæja, frv. er nú komið hingað frá háttv. Ed., og eg vænti þess, að það fái greiðan gang hér í gegn um deildina. Eg sé það að vísu, að það er framkomin brtill. frá háttv. 2. þm. Árn. (S. S.); en sem eg hygg vera þess eðlis, að ekki sé ástæða til hennar vegna að vera að velkja frumv. milli deildanna. Og því síður er ástæða til að samþykkja þessa brtill. hér, sem svipuð tillaga eða alveg sams konar kom fram í Ed. nú, þegar málið var þar til umræðu, en fékk þar ekki nema að eins 3 atkv. Ef hv. Nd. nú samþykti breyttill. þessa, þá mundi Ed. að sjálfsögðu fella hana aftur úr frumv. Munurinn, sem hér er um að ræða, er heldur ekki svo mikill, að um hann sé vert að deila. Hann er ekki nema í hæsta lagi 3000 kr. útgjaldaauki fyrir prestlaunasjóð, og stafar það af því, að 1886 og ’88 voru vígðir mun fleiri til prests en vanalega á sér stað. Árið 1886 voru vígðir til prests 10 kandidatar, og 1888 12. Af því að þessi árin vígðust svona miklu fleiri en vanalega á sér stað stafa þessi auknu útgjöld. Ef ekki hefði staðið svona sérstaklega á, að prestum fjölgaði svona mikið á þessum árum, sem sé um 10 og 12, í stað 4, 5 og 6 eftir því sem vanalega gerist, þá mundi engin breyt.till. hafa komið fram, því útgjaldaaukningin hefði þá engin orðið við þessa breytingu. En það er engin sanngirni í því, að af því að venju fremur margir prestar vígðust þessi árin, að láta þá gjalda þess. Sem embættismaður þjóðkirkjunnar hlýtur presturinn að hafa sama rétt til launa, hvort margir eða fáir hafa með honum vígst á því einu og sama ári. Eg mun því af þessari ástæðu greiða atkvæði á móti breyt.till., sem fram er komin. En geta skal eg þess, að persónulega snertir frv. þetta mig alls ekki. Eg stend ekki undir ákvæðum umræddra laga hvað laun mín áhrærir og býst ekki við að komast undir þau, svo að ekki er með nokkru móti hægt að núa mér því um nasir, að eg sé af eigingirni eða fyrir persónulegs ávinnings sakir á móti breyt.till. Að eg er á móti henni kemur eingöngu til af því, að með henni mælir alls engin sanngirni, heldur þvert á móti, jafnframt því að hún á sér ekki vísan nema 3 atkv. stuðning í háttv. Ed. og samþykt hennar hér mundi því að leiða til þess, að frumv. þetta kæmi að óþörfu til að velkjast fram og aftur á milli deildanna.