24.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1196 í B-deild Alþingistíðinda. (1429)

30. mál, laun sóknarpresta

Eggert Pálsson:

Það er rétt hjá háttv. framsögumanni. (P. J.), að enginn ágreiningur hefir orðið í nefndinni um aðalstefnu frumvarpsins sjálfs. Allir hafa litið svo á, að sjálfsagt væri að laga gallana á núgildandi lögum, sem stafa af ákvæðinu um það, að miða launaupphæðina við það, að hafa náð þjónustualdri ? og ? hluta af prestum landsins, í stað þess að miða við fasta þjónustuáratölu, eins og hér er gert ráð fyrir. Ágreiningurinn hefir snúist um annað. Minni hlutinn hefir álitið að bezt væri að samþykkja frumv., eins og háttv. Ed. hefir gengið frá því, en meiri hl. hefir hallast að breyt.till. á þgskj. 158. Minni hlutinn hefir litið svo á, að þótt frumv. yrði samþykt, eins og það er, þá baki það ekki prestlaunasjóði aukin útgjöld svo að um muni, nema rétt fyrst í stað vegna afbrigða þeirra, sem áður hefir verið getið, sem sé að árin 1886 og 1888 voru óvenjulega margir vígðir til prests. En slíkt lagast fljótt. En verði nú farið að samþ. þessa breyt.till., að í stað 22 ára skuli koma 24 ár, þá verður það ekki til annars en þess, að frumv. verður að hrekjast þannig breytt til Ed. aftur, og eftir því, sem menn vita bezt um stefnuna þar, mun því óðara verða hrundið í gamla horfið aftur. Þá verður ekki nema um tvent að velja hér: annaðhvort að samþykkja það, eins og það er eða láta það fara að velkjast í sameinað þing, og eg álít þessa breyt.till. ekki þess verða, að lagt sé út í þann eltingaleik hennar vegna. Annars er mér þetta ekkert kappsmál, og skal eg því ekki lengja umræðurnar frekar.