27.02.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1201 í B-deild Alþingistíðinda. (1443)

14. mál, heyforðabúr

Flutningsm. (Sig. Sigurðsson):

Frumv. það, sem hér ræðir um, fer að eins fram á, að heimila sýslunefndum að gera samþyktir um heyforðabúr og heyásetningseftirlit. Hér er því um heimildarlög að ræða eða frumv. til þeirra. Á síðasta þingi voru, eins og kunnugt er, samin lög um heimild til að koma á fót kornforðabúrum. Að vísu hafa þau lög enn verið lítið notuð. Það hafa að eins verið stofnuð tvö kornforðabúr í skjóli þessara laga, í Bæjarhreppi í Strandasýslu og í Grímsey. Sumir hafa nú fundið það að þessum lögum, að þau ekki innihéldu ákvæði um heimild til að stofna heyforðabúr. Úr þeirri vöntun bætir frumv. það, sem hér liggur fyrir.

Hér skal eigi að þessu sinni farið út í það, hver nauðsyn er á slíkum heimildarlögum. Hins vegar geta vafalaust allir orðið á eitt sáttir um það, að heyásetningsmálið sé afar þýðingarmikið, og eitt af þeim málum, er landbúnaðinn varðar hvað mest. Skynsamlegur og góður heyásetningur er undirstaða undir velfarnan og velmegun bændalýðsins í þessu landi. Það hljóta allir þeir að viðurkenna, er þekkja hvernig hagar til hjá oss með veðuráttu og annað fleira.

Eg geri nú ráð fyrir, að þessi lög um heimild til að koma á fót heyforðabúrum, mundu ekki alment notuð. En þess vænti eg þó, að þau komi þar að gagni, sem þeirra er mest þörf og að ákvæði frumv. um hluttöku landssjóðs í heyforðabúrakostnaðinum hvetji menn til framtaks og aðgerða í þessu efni. Á forðabúrum til skepnufóðurs er þörfin mest í þeim sveitum, er hafís getur lokað höfnum og tept allar samgöngur á sjó. Og einnig eru þau nauðsynleg, þar sem langt er í kaupstaði og erfitt er um samgöngur á landi að vetrinum.

Eg vænti nú þess, að frumv. verði vel tekið, og legg það til, að því verði vísað til landbúnaðarnefndarinnar.