06.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1202 í B-deild Alþingistíðinda. (1445)

14. mál, heyforðabúr

Bjarni Jónsson:

Eg bjóst við, að háttv. flutningsm. frumv. mundi láta eitthvað í ljósi um það, en fyrst hann er ekki viðlátinn, skal eg fara um það nokkrum orðum.

Frumv. er komið frá Torfa Bjarnasyni í Ólafsdal og er mjög nytsamt og gott að minni hyggju. Það verður aldrei ofmetið það tjón, sem bændur hafa af heyásetning, ef ekki er hagað viturlega. Öllum liggur í augum uppi, hversu mikilsvarðandi það er að koma í veg fyrir horfelli. En til þess að sveitirnar ráði sjálfar, sýnist hagkvæmast að hafa samþyktarlög um heyásetning og heyforðabúr. Fellisárið mikla, 1882, var mikið talað um að setja upp heyforðabúr, en dregist hefir þó að koma þeim upp; en það má ekki dragast lengur, því að ella kynni svo að fara, að það drægist, unz annað eins harðindaár kæmi aftur og árið 1882. Mér virðist sem nefndarmenn muni ekki vilja hafa skoðunarmenn, en slíkt er þó hin mesta nauðsyn vegna bænda, sem byrja á búskap. Skoðunarmennirnir verða þeim ráðunautar innansveitar. Til dæmis um nauðsyn þess skal eg geta þess, að sonur duglegs bónda eins, sem eg þekti, byrjaði búskap og settist í gott bú, er faðir hans fékk honum. Þetta var árið

1881—1882. Næstu fardaga, 1882, var alt féð fallið og beinin lágu í hrönnum um túnið. Þetta kom til af því að maðurinn var alinn upp í eyjum og því óvanur heyásetningu. Af þessum sökum tel eg nauðsynlegt að hafa slíka ráðunauta í sveitunum.