25.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1208 í B-deild Alþingistíðinda. (1458)

20. mál, skoðun á síld

Framsögumaður (Björn Þorláksson):

Eg þarf ekki að taka neitt fram umfram það, sem í nefndarálitinu stendur. Oss þótti frv. sumstaðar óljóst, t. d. síðari liður 1. gr. Þar er ekki talað um, hvað síldin eigi að hafa legið lengi í salti, þótt skiljanlegt sé, að það eigi að fara eftir dómi matsmanna. Í síðara lið 7. gr. er orðið »vörumerki« í stað »merki«. Það eru til sérstök lög um vörumerki og nota kaupmenn þau á vörum, sem þeir fá og senda.

Í þriðja lagi stendur í 8. gr. 1. lið, að matsmenn skuli fá 2 kr. í fæðispeninga. Hér hefði átt að bæta við: »á dag«.

Öll þessi atriði eru raunar svo lítils verð, að nefndin leggur með því, að frumv. óbreytt verði að lögum.