04.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1214 í B-deild Alþingistíðinda. (1465)

27. mál, Maríu- og Péturslömb

Sigurður Gunnarsson:

Eg tek undir með hv. 2. þm. Eyf. (St.St.), að ástæða sé til þess að skipa nefnd í málið, annaðhvort 3 manna nefnd eða 5 manna nefnd eða þá að vísa því til einhverrar nefndar, sem þegar hefir verið skipuð, sem hefir með höndum mál lík þessu. Hvort ofan á verður, læt eg mig litlu skifta. Annars hallast eg að því, að þessa fóðurskyldu beri að afnema. Mig langar þó um leið til að gera þá fyrirspurn til háttv. 2. þm. N.-Múl. (Jóh. Jóh.), hvort hann álíti, að þessi fóðurskylda hafi haldist við á Austurlandi af því, að hann álíti, að prestarnir þar hafi verið ágjarnari en annarstaðar á landinu? Mér þætti leitt, ef orð hans yrðu skilin á þann veg. Sömuleiðis langar mig til að vita, hvort svokölluð »Péturslömb« á Hálsi, og »Magnúsarlömb« á Húsavík eigi ekki líka að hverfa úr sögunni, ef þau eru enn við líði, en um það er eg ekki nógu fróður.