03.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1214 í B-deild Alþingistíðinda. (1466)

27. mál, Maríu- og Péturslömb

Pétur Jónsson:

Eg legg til, að málið sé sett í nefnd eða vísað til einhverrar nefndar, sem þegar hefir verið kosin, t. d. nefndarinnar í málinu um sölu kirkjujarða. Eg tek undir með háttv. 2. þm. Eyf. (St. St.) um að mál þetta sé athugavert. Það er ekki rétt að leggja áherzluna á það, hve ránglátlega eða hvernig kvöðin sé til orðin, hún er orðin réttmæt nú gegnum hefð, þótt hún ef til vill í fyrstu ekki hafi verið réttmæt. Og nú er kvöðin eign kirkjunnar og hennar réttmæt eign. Landssjóður á sjálfsagt margar eignir, sem upphaflegar heimildir eru ókunnar fyrir, og sjálfsagt eru margar af þeim illa til komnar. Sama má víst segja um eignir einstakra manna. Upphaflegur eignarréttur á þeim er illa til kominn oft og tíðum og engu betur. Gömul saga er til um, að Grund í Eyjafirði hafi eitt sinn í harðæri verið seld fyrir eitt kindarlæri. Þannig eru margar eignarheimildir til orðnar fyrir kúgun og kvöl, og verður þeim eigi riftað nú, þegar þær eru svo gamlar, að rifting á þeim myndi koma niður á þeim, sem vel eru að eignunum komnir, og borgað hafa þær fullu verði.

En þessar kvaðir eru mjög óþægilegar og óheppilegar báðum málsaðilum og valda óánægju og stundum ósamlyndi. Þegar því það opinbera á kvöðina ætti hún að seljast með mjög vægum kjörum. Það kostar líka töluvert að þrefa um þetta á mannfundum og alþingi. Þessar kvaðir, sem hér er um að ræða eru óheppilegar en ekki óréttmætar, og eg vil óska þess, að þessum kvöðum verði létt af með sem vægustum kjörum.