03.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1216 í B-deild Alþingistíðinda. (1468)

27. mál, Maríu- og Péturslömb

Pétur Jónsson:

Eg hafði einmitt gleymt því atriðinu, sem háttv. 2. þm. N.-Múl. (Jóh. Jóh.) mintist á, þar sem hann hélt því fram, að þetta væri ekki kvöð á jörðunum sjálfum, heldur ábúendum. Eg er þar á gagnstæðri skoðun, enda líta hagfræðingar nútímans svo á, að það hafi eiginlega enga þýðingu, nema rétt í bili, hvorum af tveimur, eiganda eða ábúanda, sé gert að skyldu að inna slíka kvöð af hendi. Ábúandi tekur við þessari kvöð með jörðinni, og því fylgir hún henni, en sé kvöðinni létt af, þá má þegar leigja jörðina dýrar en áður.

Annars skil eg það vel, að menn vilji létta af þessum gömlu gjöldum, bæði þessum lömbum, prestsmötu o. fl. En það á ekki að gera það endurgjaldslaust, þ. e. gefa þessar eignir að fullu einstökum mönnum. Að vísu var létt af gjöldum með sóknargjaldalögunum, sem hvílt hafa á jörðunum langa hríð, svo sem tíundum til prests og kirkju. En það voru mjög lág gjöld og önnur sett í staðinn, sem koma mjög niður á sömu mönnum, þótt þau sé persónuleg gjöld, svo það jafnar sig.