03.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1217 í B-deild Alþingistíðinda. (1469)

27. mál, Maríu- og Péturslömb

Flutn.m. (Jón Jónsson 1. þm. N.-Múl.):

Eg heyri það á háttv. þm. S.-Þing. (P. J.), að hann vill láta menn kaupa af sér þessar kvaðir. En það er rétt hjá háttv. 2. þm. N.-Múl. (Jóh. Jóh.), að þær hvíla á ábúendum, en ekki eigendum jarða. Þarf því ekki að búast við, að eigendur jarðanna leggi neitt í sölur til að losna við þessa kvöð, þar sem þeir byggja jarðirnar alveg án tillits til þessarar kvaðar, landsskuldin sú sama, hvort sem þessi fóðurskylda er eða ekki. Eg tek þetta fram af því, að ef það er tekið til greina, þá sjá menn, hve eðlilegt það er, að þetta sé úr gildi numið og kostnaðurinn lagður á landssjóð. Fyrir austan hefir það komið fyrir, að óvild hefir risið út af þessu milli prests og safnaðar, en það er ranglátt að kenna prestunum um þetta, það er venjunni að kenna. Þess vegna eiga ekki heldur prestarnir að bíða tjón við breytinguna, og er þá eðlilegast og einfaldast, að landssjóður borgi þeim. Þingið hefir annars ekki verið vant að sýta í því um líkt, þótt stærra væri, svo sem launahækkun presta og uppbót á prestaköllum. Það er nú oftast vant að gera mest veður út af smámununum. Þess er og að gæta hér, að þessi kvöð þykir öllum óeðlileg og óviðfeldin, ekki sízt vegna nafnsins.