14.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1218 í B-deild Alþingistíðinda. (1471)

27. mál, Maríu- og Péturslömb

Framsm. meiri hl. (Jóhannes Jóhannesson):

Eins og sjá má á nefndarálitinu hefir nefndin í máli þessu klofnað. Meiri hluti nefndarinnar leggur það til, að frumv. verði samþykt óbreytt, en minni hl. hefir komið fram með brtill. við það, fyrst á þgskj. 135 og síðan á þgskj. 151. Aðalmunurinn liggur í því, að meiri hl. vill afnema kvöð þessa endurgjaldslaust, en minni hl. vill aftur á móti, að hlutaðeigendur leysi sig undan henni móti einhverju gjaldi, því er sanngjarnt þætti. En þetta á aftur rót sína að rekja til þess, að mönnum kemur ekki saman um það, á hverjum þessi gjöld hvíli. Meiri hl. heldur því fram, að það hvíli á ábúendum jarðanna, en minni hl. að það hvíli á eigendum þeirra. Eg talaði nú allítarlega um þetta mál þegar við 1. umr. hér í deildinni, og þóttist þá sýna fram á það, að þetta væru persónulegar kvaðir, og af því leiðir, að þótt aflausnargjöldin kunni að vera sanngjarnlega sett, þá verður meiri hl. að vera á móti brtill. en leggja með því, að frv. verði sþ. eins og það er.

Eg ætla ekki að eyða mörgum orðum um ýmislegt, er sett hefir verið í samband við þessa fóðurskyldu, svo sem prestsmötur o. fl. Það er alt annars eðlis. Hér er um smámuni eina að ræða. Þetta eru ekki nema 67 lömb, og ef lambsfóðrið er reiknað á 4 kr., þá munar það ekki prestlaunasjóð nema um 200 kr., hvort frumv. verður sþ. óbreytt, eða brtill. minni hl. En nú er að minsta kosti helmingurinn af jörðunum, sem þetta hvílir á, opinber eign, og veit eg að háttv. minni hl. ætlast þó ekki til þess, að neitt sé goldið fyrir afnám kvaðarinnar af þeim.

Annars er það um hinar kvaðirnar að segja, að meiri hl. hefir ekkert á móti því, að þeim verði einnig létt af, en hann vill einungis ekki láta flétta það saman við þetta mál.

Þetta frv. ætti að samþykkjast óbreytt, eins og það stendur á þgskj. 58.