14.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1220 í B-deild Alþingistíðinda. (1473)

27. mál, Maríu- og Péturslömb

Framsögum. minni hlutans (Ólafur Briem):

Það hefir oft verið deilt um það hér í deildinni, hvort þetta, sem hér er um að ræða, sem sé fóðurskylda hinna svonefndu Maríu- og Péturslamba væri persónulegt gjald, eða kvöð, sem hvíldi á viðkomandi jörð. Mér fyrir mitt leyti getur ekki blandast hugur um það, að þetta er kvöð á jörðunum, og til merkis um það skal eg geta þess, að í sumum sóknum hvílir skyldan ekki nema á sumum jörðunum. Ef hin skoðunin væri rétt, þá ættu allir í sömu sókn að vera undir sömu lögum. Eins má geta þess, að þótt tvíbýli sé á jörð, þá er ekki fóðrað þar nema eitt lamb, en hins vegar eru þá ætíð fóðruð tvö prestslömb. Þetta sannar, að svo hefir verið litið á, að kvöðin hvíli á jörðunum.

Brtill. minnihl. eru bygðar á því, að æskilegt ætti að vera fyrir alla hlutaðeigendur, að kvaðir þessar legðust niður, á þann hátt, að gjöldum þessum yrði breytt í höfuðstól, sem borgaður yrði út í eitt skifti fyrir öll. Þessi regla gæti gilt, ekki að eins um áminsta fóðurskyldu, heldur einnig um fleiri kvaðir, sem hvíla á jörðum, einkum prestsmötur. Í fyrri brtil minni hl. er öllum slíkum jarðarkvöðum gert jafnhátt undir höfði, en við nánari athugun sannfærðist minni hl. um það, að þetta væri ekki sanngjarnt, sérstaklega þar sem um svo mis stór gjöld er að ræða. Fóðurskyldugjaldið er svo lágt, að prestlaunasjóð munar það mjög litlu, en öðru máli er að gegna um prestsmöturnar. Eftir brauðamatinu frá 1854 og öðrum þeim skýrslum, er minni hl. nefndarinnar hefir átt kost á að kynna sér, eru allar prestsmötur á landinu nálægt 10 þús. pd. smjörs, og ef hvert pd. er reiknað á 60 aura, er hið árlega prestsmötugjald 6000 kr. Væri þessu árgjaldi breytt í höfuðstól með því að margfalda það með 20 eftir tillögu minni hl., yrði sú fjárhæð 120 þús kr., er með 4½% vöxtum gæfi af sér í árstekjur 5,400 kr. Tekjumissir prestlaunasjóðs við afsal þessara kvaða mundi því að eins nema 600 kr. á ári. Auðvitað þarf prestlaunasjóður ekki að sætta sig við þetta tap, en vera má þó að forráðendur sjóðsins vilji vinna það til, til þess að losa menn við þessar óvinsælu kvaðir. Eftir þeim upplýsingum, sem fyrir liggja um hin svonefndu Maríu- og Péturslömb, eru þau um 70 talsins, og sé hvert lambseldi metið 4 kr., gerir það 280 kr. Þar við bætist fóðurskylda 4 vetrunga, tilheyrandi Hrunaprestakalli, sem eftir gömlu lagi er áætlað 50 kr. Hinar árlegu tekjur af þessum kvöðum eru því alls 330 kr., sem margfaldað með 12 eftir till. minni hl. samsvarar 4000 kr. höfuðstól, sem með 4½% vöxtum gæfi af sér 180 kr. tekjur á ári. Tekjumissir sá, er prestlaunasjóður yrði fyrir með því að afsala sér umræddum kvöðum með þeim kjörum, er hér greinir mundi því nema 150 kr. árlega. Minni hl. álítur nú gerlegt að ganga að þessari lækkun til þess að losast við þessi óvinsælu gjöld og allt það stapp, er þau hafa valdið, bæði hér og heima fyrir.