16.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1227 í B-deild Alþingistíðinda. (1477)

27. mál, Maríu- og Péturslömb

Eggert Pálsson:

Eg gat þess áður hér í deildinni við 2. umr. málsins, að ef enginn annar yrði til þess að koma fram með breyt.till. við frumv. þetta, þá myndi eg gera það og liggur hún nú fyrir á þgskj. 210. Eg sé ekki ástæðu til að fara mörgum orðum um málið nú, því að eg gat þess síðast, hvert efnið myndi verða í breyt.till. Og efnið er það, að þessum kvöðum verði ekki létt af mönnum án alls endurgjalds, heldur verði þeim gert að skyldu að greiða nokkurt gjald, þótt ekki verði það full borgun fyrir að kvöð þessi falli niður. Eg skil ekki annað en að hlutaðeigendum þyki slík ákvæði betri en ekki, og ekki get eg fallist á ástæður háttv. framsögum. meiri hl. (Jóh. Jóh.) fyrir því, að kvöð þessi hvíli á ábúendum, en ekki eigendum jarðanna, því að ef kvöð þessari er létt af, þá hljóta jarðirnar að stíga í verði að sama skapi. Það má miða þetta við ábúðarskattinn. Eins og hann er nú er hann greiddur af ábúendunum, en hvílir þó á eigendum jarðanna í raun og veru. Og væri honum því létt af, án þess að nokkuð kæmi í staðinn, þá get eg ekki annað séð, en að allar jarðir hljóti að hækka í verði að sama skapi, og eigendum jarða því innan handar að þoka eftirgjaldi þeirra upp sem ábúðarskattinum svaraði og hafa þannig ríflegri tekjur af sinni eign. Með öðrum orðum, jarðirnar hækkuðu við það í verði. Og eins hljóta þessar jarðir að gera hlutfallslega, ef þessum kvöðum, sem hér um ræðir væri nú létt af fyrir alls ekkert. Það hlyti að verða notagjald sjálfra eigendanna, að minsta kosti þegar fram liðu stundir. Annars skal eg ekki fara frekar út í þetta mál en eg vænti þess fastlega, að háttv. deild verði fylgjandi breyt.till. minni.