16.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1227 í B-deild Alþingistíðinda. (1478)

27. mál, Maríu- og Péturslömb

Framsögum. meiri hlutans (Jóhannes Jóhannesson):

Eg er samþykkur háttv. 1. þm. Rang. (E. P.) um það eitt, að ekki beri að fjölyrða um þetta mál nú við 3. umr. og vera að endurtaka það, sem áður hefir verið sagt í því. En annars verð eg að lýsa því yfir fyrir hönd nefndarinnar, að henni þykir þessi breyting enn óaðgengilegri, heldur en breyttill. minni hl. nefndarinnar, sem féllu við 2. umræðu. Hér er gjaldið sett enn þá hærra, heldur en þar var, og vona eg að háttv. deild haldi fast við það, að binda ekki afnám þessara kvaða því skilyrði, að hlutaðeigendur gjaldi svo mikið fé. Og hvernig stendur á því, að hér stendur »hlutaðeigendur« en ekki eigendur? Það hefði þó legið beint við eftir skilningi háttv. þm. Þetta sýnir eiginlega, að hann er oss samdóma um það, að þetta séu úreltar kvaðir, sem einmitt hvíla á ábúendunum, og sem ekki eru samrýmanlegar hugsunarhætti nútímans.

Svo er nú það, að þótt þessi breyting yrði samþykt, þá yrði það ekki til annars en þess, að gera lögin gagnslaus, því að þá myndi enginn nota þau. Eigendum jarðanna dytti það ekki í hug, af því þeir líta svo á, sem kvöðin hvíli á ábúðinni, og ábúendum að jafnaði ekki heldur, því að þeir eru ekki vissir um að búa svo lengi á jörðinni að það borgi sig. Þetta væri því að gera lögin þýðingarlaus. Þess ber og að gæta, að helmingurinn af jörðunum er eign prestlaunasjóðs eða landssjóðs. Annars veit eg að háttv. flutn.m. er er ekki fast í hendi með þetta, enda vona eg að það verði felt, en frumv. samþykt óbreytt.