01.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1229 í B-deild Alþingistíðinda. (1480)

28. mál, sala kirkjujarða

Flutningsm. (Stefán Stefánsson):

Eins og háttv. deild er kunnugt lá þetta mál fyrir síðasta þingi. Var því þá allvel tekið og vísað til landbúnaðarnefndarinnar, sem gaf því eindregin meðmæli sín, og síðan samþykt hér í deildinni með 19 samhlj. atkv. En svo feldi Ed. frv. við 1. umr. og hafði þá rætt það lítið og sumir deildarmenn að líkindum enn minna um það hugsað.

Frumv. þetta er fram komið af því, að lögin um sölu kirkjujarða eru ekki vel ljós um það atriði, hvort leyfilegt sé að selja hjáleigur undan prestssetrum. En af viðtali við þá menn, er sátu í milliþinganefndinni í landbúnaðarmálum og undirbjuggu lögin um sölu kirkjujarða, og sömuleiðis af bréfi herra biskupsins til stjórnarráðsins, dags. 10. apríl 1908 er það ljóst, að sú hefir í öndverðu verið tilætlunin, að salan ætti að vera heimil að því skilyrði viðbættu, er við landbúnaðarnefndarmenn á síðasta þingi settum, að hjáleigurnar skyldu hafa sérstök ummerki á túni og engjum.

Sé eg svo ekki að fjölyrða þurfi um þetta mál og heldur ekki nauðsynlega nefndarskipun, þar sem frumvarpið er með, öllu óbreytt frá því, sem það var samþykt hér í deildinni á síðasta þingi, en vænti þess, að frumv. fái að ganga til 2. umr.