29.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1230 í B-deild Alþingistíðinda. (1485)

28. mál, sala kirkjujarða

Framsögum. meiri hl. (Stefán Stefánsson):

Þetta frumv. er loks komið til deildarinnar aftur eftir langa og mikla dvöl. Eins og nefndarálitið ber með sér, hefir nefndin klofnað. Meiri hlutinn álítur, að frv. með þeim breytingum, sem hann stingur upp á, sé til bóta. Nefndin, eða meiri hluti hennar, leggur til að frv. sé breytt í 2 atriðum, nfl. í fyrsta lagi, að ásamt engjum og túni séu einnig gerð ummerki á úthögum hjáleignanna, þegar skifti og mat fara fram. Þetta er nauðsynlegt til þess að matið sé rétt og enginn misskilningur verði á því síðar, hvað hjáleigunni fylgir. Hin breytingin, sem meiri hluti nefndarinnar leggur til að gera, er fólgin í því, að álits umráðamanns og hreppstjóra skuli jafnan leitað um söluna. Það er til þess að fyrirbyggja, að sala hjáleignanna verði til skaða fyrir prestssetrið. Með þessum breytingum virðist trygt, að frv. reynist ekki varhugavert. Sýslunefnd á að segja til, hvort býlið, sem selja á, sé nauðsynlegt til almenningsnota eða sala þess komi í bága við hagi almennings, sé t. d. hentugt skólasetur o. s. frv. Að öllu þessu athuguðu sýnist tryggingin af hendi hins opinbera vera svo skýr og fullnægjandi, að frekara gerist engin þörf.

Áður en eg lýk máli mínu verð eg að taka fram, að ef það er talið heppilegt, að sem flestir bændur verði sjálfseignarbændur, og þeirri stefnu hefir alþingi tjáð sig hlynta með þjóðjarðasölulögunum, kirkjujarðasölulögunum og lögunum um forkaupsrétt leiguliða, þá er eg sannfærður um, að þetta frv. er á sömu rökum bygt. Stjórnarráðið hefir ekki viljað leggja þann skilning, eða ekki þótt nógu skýr heimild í lögunum 1907 um sölu kirkjujarða til þess að selja prestsetrahjáleigurnar, jafnvel þótt sýslunefndir hafi verið á annari skoðun og ekki séð nein tormerki á sölunni. Eg skil ekki, að háttv. deild sé búin að breyta svo skoðun sinni frá því á síðasta þingi, að hún telji ekki þetta frv. til verulegra bóta eða jafn sjálfsagt til þess að verða að lögum, og þau sem eg nú gat um. Þá var frv. þetta samþykt með miklum meiri hluta og afgreitt til Ed., en þar var málið felt, eg vil segja fyrir misskilning einn. Eg hefi þá ekki ástæðu til að fara frekara út í málið að svo stöddu.

Minni hlutinn hefir gert að nokkuru grein fyrir skoðun sinni í nefndarálitinu og gefið ítarlega skýrslu um seldar þjóðjarðir og kirkjujarðir nú á síðustu árum, en þó vantar það í allar þessar samansöfnuðu tölur, sem mest er um vert, og ekki væri ráðin bót á, þótt þingmenn lærðu alt fylgiskjalið utan að, og það er, hvort landssjóður eða prestlaunasjóður hafi haft ábata eða skaða á sölunni. Annars býst eg við að minni hlutinn skýri frá sinni afstöðu, og skal bíða þess.