04.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1244 í B-deild Alþingistíðinda. (1494)

28. mál, sala kirkjujarða

Jón Þorkelsson:

Eg hélt að háttv. flutnm. (St. St.) mundi taka kenning af orðum mínum áðan. Sala þjóðjarða hefir ekki verið nein glæsisala, eins og háttv. þm. Mýr. (J. S.) sýndi fram á um daginn. Eg ímynda mér að landsstjórninni hafi margoft ekki verið nægilega kunnugt um allar ástæður, þegar jarðir hafa seldar verið, svo sem þegar hún seldi Stórahraun. Eg er kunnugur þeim manni, sem jörðina vildi kaupa og veit að boð hans (6000 kr.) var ekkert tylliboð. Sá sem hana hlaut, sat á henni og hafði bygging til eins árs. Þessi jörð er að allra áliti 6000 kr. virði; hún er metin til dýrleika 35 hundruð, auk 4 kúgilda, en hún var seld á 3500 kr. Jörðin er kostajörð, hefir góða útbeit í Eldborgarhrauni, selveiði, dúntekju og laxveiði. Sökum þessa tilboðs var heimtað yfirmat á jörðinni, og voru til þess kvaddir að vísu nýtir menn, en svo er að sjá sem þeir hafi ekki veitt hlunnindum jarðarinnar eftirtekt, svo að yfirmati og undirmati bar saman. Nú vill sá, heyri eg sagt, sem hana keypti, ekki selja hana fyrir minna en 10000 kr.

Það er margt yfir höfuð, sem bendir á, að þjóðjarðir séu of lágt seldar, margar undir 100 kr. hundraðið. í Þverárþingi, sem er einna bezt hérað á landi hér, eru þær seldar mjög lágt. Ættum vér því ekki að keppa eftir frekari lögum í þessu efni, heldur ýta undir landsstjórnina að hafa meiri gát á fasteignum landssjóðs. Sérstaklega ber þess vel að gæta, að ár landssjóðs, þar sem laxveiði er, lendi ekki í höndum »spekulanta«, sem svo selja þær í hendur útlendinga. Eykur það, ef svo fer, lítið sjálfsábúð í landinu, sem þó mun hafa verið aðaltilgangur laganna um sölu þjóðjarða og kirkjujarða.