29.04.1911
Sameinað þing: 27. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 22 í B-deild Alþingistíðinda. (15)

4. mál, styrkveiting úr landssjóði til búnaðarfélaga

Framsögumaður (Sigurður Sigurðsson):

Þessi tillaga hefir fengið rækilegan undirbúning. Snemma á þinginu er hún borin fram í háttv. neðri deild, og um sama leyti er hún til umræðu á búnaðarþinginu. Síðan hefir tillagan verið rædd tvisvar í hvorri deild. — Efri deild gjörði nokkrar breytingar á tillögunni og eru þær flestar þannig vaxnar, að landbúnaðarnefnd neðri deildar getur fallist á þær. Eigi að síður eru nokkur atriði, sem nefndin sá sér ekki fært að ganga inn á, og þessvegna hefir hún komið með breytingartillögurnar á þingskjali 700. Þær eru 5 talsins, en í eðli sínu ekki nema 3. Aðalbreytingin, sú eina, sem nokkru máli skiftir, snertir 4. lið hinna almennu skilyrða. Þegar tillagan fór frá neðri deild, var svo ákveðið í þessum lið, að skoðunarmenn skyldu ekki vera fleiri en 3 í hverri sýslu. Efri deild breytti þessu þannig, að skoðunarmaður skyldi að eins vera einn, en þó megi sýslunefnd skipa 2—3 skoðunarmenn í sýslu með samþykki stjórnar Búnaðarfélags Íslands Breyting efri deildar miðast við það, að í ráði er að koma á sambandi milli allra búnaðarfélaga í landinu og að búnaðarsambandið hafi einn skoðunar- og mælingamann í hverri sýslu. En þessu máli er ekki komið svo langt áleiðis enn, að allar sýslur landsins séu komnar í búnaðarsamband. Nefndin leggur því til, að síðustu tvær málsgreinarnar í 4. lið falli burt, og í þess stað komi, að skoðunarmenn skuli eigi vera fleiri en þrír í sýslu hverri. Jafnvel þó búnaðarsambönd komist á um land alt, sem nefndin vonar að verði, þá gæti þetta atkvæði ekki orðið því til fyrirstöðu, að að eins einn maður skoði jarðabætur í hverri sýslu. Það væri þá samningsatriði. En nefndin vildi ekki að það væri skylda að hafa að eins einn skoðunarmann, því að það hefir í för með sér töluverðan kostnað og erfiðleika, sérstaklega í þeim sýslum, sem eru stórar og illar yfirferðar. Nefndin leggur áherzlu á þetta atriði, eins og nú tilhagar. En það er ekkert því til fyrirstöðu, þegar allar sýslur eru komnar í búnaðarsamband, að menn þá komi sér saman um einn skoðunarmann í hverri sýslu. Þetta er aðalbreytingin; hinar eru minna virði. Næsti flokkur breytinganna er eiginlega ekki nema orðabreyting. Í tillögunni, sem upphaflega lá fyrir neðri deild, var talað um „áburðarhús og forir“. Neðri deild setti „safnþrór í staðinn fyrir „forir“, en efri deild breytti því í „safngryfjur“. Nefndin vill breyta því aftur í safnþrór og álítur, að það orð fullnægi betur hugtakinu, sem liggur á bak við það. Auk þess er orðið ekki ljótt í sjálfu sér. Loks er síðasta breytingin, hún er líka óveruleg. En nefndinni virtist ástæða til að setja metri — fermetri og rúmmetri — í staðinn fyrir m., m2 og m3, eins og nú stendur í tillögunni. Nefndin álítur þetta áferðarfegurra og skýrara fyrir almenning, sem naumast skilur enn alfarið hvað m2 o. s. frv. þýðir.

Þótt þessi merki séu notuð í ritum, þá álít eg að hér fari betur á, að orðunum fermetri og rúmmetri sé haldið.