22.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1261 í B-deild Alþingistíðinda. (1532)

78. mál, Dalahérað

Framsögum. (Jón Jónsson 1. þm. S.-Múl.):

Eg var framsögumaður þeirrar nefndar, sem um þetta mál fjallaði og get vísað háttv. þm. á nefndarálitið, þar sem gert er grein fyrir, hvers vegna nefndin lagði til, að stofnuð yrðu að eins 2 ný læknishéruð. Því fer fjarri að miklar ástæður séu til þess að neita þessu héraði um lækni. Það er sjálfsagt mikil þörf læknis þar, eins og víða annarsstaðar. En niðurstaðan hjá nefndinni varð nú sú, að taka að eins fyrir tvö héruð á þessu fjárhagstímabili, enda er viðkoma lækna ekki meiri en svo, að litlar líkur eru fyrir því, að hægt sé að bæta við fleiru en einu héraði á ári. Afleiðingin af því, að þetta frumv. væri samþykt yrði því sú, að annaðhvort fengist enginn læknir þangað, eða, ef læknir kæmi þangað, þá færi hann úr öðru héraði, sem yrði þá læknislaust. Okkur er það raunar ekkert kappsmál, að þetta frumv. verði felt, en álítum ekki ráðlegt að fara frekar út í stofnun læknishéraða að sinni.

Eg geri því ráð fyrir, að eg fyrir mitt leyti og eg hygg líka hinir aðrir nefndarmenn greiði atkvæði á móti frv. á þessu þingi.