22.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1262 í B-deild Alþingistíðinda. (1534)

78. mál, Dalahérað

Jón Magnússon:

Eg vil að eins minna háttv. deild á það, að 1907 voru samin hér á þinginu ný lög og landinu þá skift niður í læknahéruð, eftir því sem nauðsyn þótti bera til og landssjóður fær um. Næsta þing bætti við 4 nýjum héruðum, og nú er beðið um 6 í viðbót. Auðvitað er hægt að færa margar ástæður fyrir, að bæta þyrfti 10—20 héruðum við ennþá. Það mætti auk heldur færa talsverð rök að því, að það væri mjög gott að hafa minst 200 lækna, eða 1 lækni í hverjum hrepp, en þess verður líka að gæta, hvað landssjóður er fær um að borga. Mig minnir þegar fjárlögin fóru héðan frá deildinni, að 341 þús. kr. væru ætlaðar til læknaskipunar. Það er mikið gott að leggja talsvert fé til læknaskipunar, en einhverntíma hlýtur þó að vera náð því takmarki, sem ekki má fara fram yfir. Frá því sjónarmiði álít eg óráðlegt að bæta við nýjum héruðum. Auk þess ekki heppilegt að vera að bæta við hingað og þangað nýjum læknishéruðum, án þess að athuga, hvort í samræmi sé við læknaskipunina í heild. Jafnvel þó að hér geti verið talsverð þörf til þess að stofna læknishérað, verð eg þó að leggja á móti því, að lengra verði farið en að bæta tveim héruðum við á þessu þingi. Það er sannarlega nógu langt farið.