07.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1263 í B-deild Alþingistíðinda. (1537)

46. mál, lækningaleyfi

Björn Kristjánsson:

Eins og hv. flutningsm. sagði, lá þetta mál hér fyrir á síðasta þingi, og urðu þá umræður um það. Það er og rétt, að það er fram komið eftir tilmælum landlæknis, og eg álít það rétt, að hér komi fram álit deildarinnar á málinu til leiðbeiningar fyrir væntanlega nefnd. Síðast var því vísað til nefndar, en sú nefnd kom aldrei fram með það, meðfram af því, að sýnilegan áhuga á málinu skorti. Það hefir verið komið fram með þetta mál, eins og svo mörg önnur, að baki alþýðunni, sem einmitt ætti að eiga atkvæði um það. Þess hefir aldrei heyrst óskað á þingmálafundum, að skottulæknum yrði bannað að fara með lækningar, og samt er mesta kapp lagt á þetta mál. Alþýðan óskar ekki eftir þessum lögum, heldur vissar stéttir manna, og þetta eru æði hörð lög, og önnur ráð ættu að geta komið í stað þeirra, því að eg er viss um það, að þar sem eru góðir læknar, þar hafa skottulæknarnir lítið traust, en þar sem eru lélegir læknar, þar hafa þeir ekki traust, og því eru þeir ekki notaðir, heldur skottulæknarnir.

Eg skal leyfa mér að benda á það, að í fjölda mörg ár hefir læknastéttin með landlækni í broddi fylkingar verið að gera tilraunir til þess að fá skottulækningarnar bannaðar. Niðurstaðan hefir ætíð orðið hin sama. Það hefir ekki fengist framgengt, af því að alþýðan hefir ekki viljað missa þá. Eg vil nú reyna að sýna fram á það, að þessi leið til þess að losast við skottulæknana, sé bæði óþörf og óheppileg.

Í einu héraði hér á landi var einu sinni læknir, sem hataði skottulæknana og háði harðan bardaga við þá. En svo lauk, að þeir urðu honum yfirsterkari, með því líka að hann var lélegur læknir.

Eftirmaður hans aftur á móti, var afburðagóður læknir, enda tók nú strax að minka aðsóknin til skottulæknanna, og lauk svo, að þeir höfðu ekkert að gera. Svo kom 3. læknirinn. Hann gerði skottulæknana sér að vinum, fræddi þá um marga hluti, og varð þá afleiðingin sú, að þeir vísuðu sjúklingunum frá sér til hans, þegar um alvarlega

veiki var að ræða. Eg tel því líklegt, að það sé læknunum sjálfum um að kenna, ef skottulæknar reynast skaðlegir. Þetta er sönn saga og líkt ætti að geta átt sér stað víðar. Það væri betra ráð fyrir lækna að fara þessa leið, heldur en hin fyrirhuguðu lög frá landlækninum.

Menn verða að vita það, að það getur oft komið sér vel hér í strjálbygðinni, þegar ekki næst til læknis, að einhverjir kunni þó eitthvað til lækninga. Hér í bænum, er lítið um skottulækna, af því að nóg er til af góðum, lærðum læknum, og strjálbygðin ekki til óhægðar.

Um læknaþekkinguna er það að segja, að hún er vitaskuld langtum betri heldur en áður var. En takmörkuð er hún þó við þær lækningareglur, sem kendar eru í hinum almennu læknaskólum.

Það er merkilegt við frv. þetta, að það leggur landlækni á vald að ákveða, hvaða lækningaleiðir má nota, og fyrirdæmir þar með allar aðrar lækningaleiðir en þær, sem hann vill nota, líka þær sem ekki þekkjast hér, t. d. »magnetiskar« lækningar, sem mikið eru stundaðar í Lundúnaborg og um allan heim, bæði eftir læknisráði og án þess.

Ef nú hingað kæmi maður, sem væri fróður í þessari grein, þá væri hann hér með dæmdur alveg óhæfur, og ætti það undir náð landlæknis, hvort hann fengi nokkuð að gera eða ekki. Og það eru til fleiri aðferðir, t. d. Christian-scienceaðferðin. Það eru til stór félög, bæði í Englandi og víðar, sem fást við þessar svokölluðu andlegu lækningar. Væri einhver fróður um þá lækningaaðferð hér, myndi hann verða að leita leyfis hjá landlækni til þess að iðka hana, og fengi sennilega blákalt nei, því landlæknirinn þekkir ekkert til slíkra lækninga. En sjúklingunum er sama hvaðan batinn kemur, og það er vitanlegt, að þessi lækningaaðferð hefir hjálpað mörgum manninum. Landlæknir þekkir ekkert þessa aðferð, og á þó að dæma um gildi hennar. Og það eru til fleiri lækningaaðferðir. Í Englandi og Ameríku er til ein, sem kend er við »Immannúel«. Það eru einnig nokkurskonar andlegar lækningar, og stendur félagið, sem iðkar þær í sambandi við lærða lækna, ekki til þess að láta þá aðstoða sig, heldur til þess að fá fólkið til þess að trúa á aðferðina. Um »spiritista« lækningaaðferðina má að minsta kosti fullyrða það, að hún hefir læknað marga, sem aðrir voru gengnir frá. Og eg vil benda á það, að þeir gera mest gys að slíkum aðferðum, sem minst þekkja til þeirra. Það er alveg fráleitt, að landlæknir skuli einn eiga að dæma um það, hvaða lækningaleiðir menn nota, því að til eru dæmi eins og það, að einn mjög heiðvirður borgari bæjarins var nýlega sjúkur af útvortiskvilla, og gáfust læknar upp við hann hér, og réðu honum að sigla til útlanda, ferðin var ákveðin og undirbúin, en þá bauðst skottulæknir einn til þess að gera á honum lækningatilraun, og fór svo, að hann allæknaði manninn á eitthvað vikutíma eða svo. Svona kemur það þrásinnis fyrir, að skottulæknar geta orðið hinum snjallari og hví á þá að vera að bægja þeim frá?

— Eg vona, að þingið hugsi sig vel um, nú sem fyr áður en það strikar út skottulæknana, og eg sé ekki betur, en þetta frumv. ætti að fara sömu leiðina og önnur þvílík áður, sem sé að deyja. Þó skal eg ekki, fyrir mitt leyti, hafa neitt á móti því, að málið sé sett í nefnd.