07.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1268 í B-deild Alþingistíðinda. (1539)

46. mál, lækningaleyfi

Flutningsm. (Jón Magnússon):

Eg kæri mig ekki um að lengja umræðurnar, en vona að nefnd verði skipuð til þess að íhuga og rannsaka frumvarpið. Eg vil aðeins taka það fram, að það er ekki rétt, sem háttv. 1. þm. G.-K. (B. Kr.) sagði, að frv. bannaði með öllu skottulækningar hér á landi. Það gerir þvert á móti ráð fyrir, að próflausir menn geti fengið veniam practicandi, enda er það fullkominn misskilningur hins háttv. þm., að aðaltilgangur frumvarpsins sé að meina ólærðum mönnum að fást við lækningar. Tilgangurinn er sá einn, að landlæknir geti haft eftirlit með öllum, sem hafa lækningar að atvinnu, en slíkt ákvæði vantar í núgildandi lög og er það þó hið minsta, sem heimtað verður, eftir að heilbrigðislöggjöf vor er komin á það stig, sem hún nú er á.

Eg get sagt hið sama og háttv. þm. Dal. (B. J.), að vera má að nefnd kunni að gera ýmsar breytingar á frv., en eg álít það í heild sinni svo gott og gagnlegt, að sjálfsagt sé að það fái framgang.

Það er enn þá eitt, sem eg vil minnast á. Háttv. 1. þm. G.-K. (B. Kr.) sagði, að óhæfilegt væri að gera þetta frv. að lögum, nema það væri áður borið undir almenning (Björn Kristjánsson: Það er ekki rétt!) — jú, eitthvað sagði háttv. þm. í þá átt. Mér er óskiljanlegt, að nokkur maður skuli geta sagt slíkt. Það mesta, sem hægt væri að fara fram á í þá átt, ætti þó að vera,að slík frv. yrðu ekki að lögum, fyr en þau væru rædd á 2 þingum; en hitt væri hin mesta fásinna að bera slík frumv. undir þingmálafundi. Eg skal svo ekki fara fleiri orðum um frv., en vona að nefnd verði skipuð.