07.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1275 í B-deild Alþingistíðinda. (1543)

46. mál, lækningaleyfi

Bjarni Jónsson:

Eg vildi að eins gera örfáar athugasemdir við ræðu h. 1. þm. K.-G. (B. Kr.). (Björn Kristjánsson: Eg er dauður). Það gerir ekkert til. Eg skal ekki ganga svo frá dysinni, að háttv. þm. geti ekki gengið aftur.

Hann áleit að alþýðan ætti að ráða miklu um heilbrigðismál, helzt hafa »referendum« um slíkt. Eg held að það væri þá eins gott, að almenningur ræki alla lækna í burt, og hætti við öll heilbrigðismál, enda gæti það vel orðið niðurstaðan. Eg hefi aldrei á lífsleiðinni heyrt neitt því líkt. Til þess er almenningur hvergi nærri nógu fróður. Það hefir hann meðal annars sýnt með því, að senda upp á þingbekkina nokkra alþingismenn, sem ekki eru fróðari en svona.

Háttv. þm. sagði að vel mætti sekta skottulæknana, ef það sýndi sig, að þeir gerðu skaða. En hvernig á að sanna að þeir geri það viljandi, og hvernig á að sekta þá, ef löggjafarvald þjóðarinnar lítur svo á, að ólærðir menn, sem ekkert þekkja til byggingar mannlegs líkama, megi fara með lækningar?

Það er ekki rétt heldur, sem okkur flutnm. er núið um nasir, að þetta frv. miði að því að útrýma skottulækningum algerlega. Ef einhver kann eitthvað betur en aðrir, þá er sjálfsagt að þeir njóti þess. Hér er einungis verið að reyna að koma í veg fyrir það, að óhlutvandir menn geti smeygt sér inn á trúgjarna alþýðu, henni í helberan skaða.

Það var rétt, sem háttv. þm. tók fram, að læknir hefir tiltrú, þegar hann hefir tiltrú og að skottulæknir hefir tiltrú, þegar hann hefir hana. Það líkist dálítið setningunni, sem allir kunna: »að góð blöð geta verið góð, þegar þau eru góð«. Enginn efast um að þetta sé satt en það var óþarfi að taka það fram.

Mér þykir skrítið að heyra því haldið fram, »að menn telji nauðsynlegt að hefta frelsi íslenzkrar alþýðu í þessu efni, svo sem hún væri ófærari að sjá um sig en alþýða í öðrum löndum«.

Háttv. 1. þm. Rang. (E. P.) hlýtur að vita það, að Ísland er hið eina menningarland, þar sem engin lög eru til um það, hverjir megi hafa atvinnu af lækningum. Allar aðrar þjóðir, sem umhverfis oss búa hafa lög um þetta til þess að stofna ekki lífi manna í voða með því að láta óhlutvanda menn hafa leyfi til að ginna almenning. Það er þjóðkunna annarstaðar, að nauðsynlegt er að hamla með lögum því að slíkt megi verða.