07.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1277 í B-deild Alþingistíðinda. (1545)

46. mál, lækningaleyfi

Jón Ólafsson:

Eg skal ekki níðast á hinum háttv. þm. G.-K. (B. Kr.), því að hann er dauður. En eg ætla að snúa mér að háttv. þm. Rang. (E. P.). Hann bar fram þá merkilegu staðhæfing, að ef þetta frumv. næði fram að ganga, væri það þvert ofan í það sem ætti sér stað með öðrum þjóðum. Nú vil eg spyrja háttv. þm., hvort hann getur nefnt eitt einasta siðað land í víðri veröld, þar sem leyfðar eru skottulækningar. Eg bíð eftir svarinu. En hitt skal eg benda háttv. þm. á, að mér er kunnugt, að í Canada og Bandaríkjunum eru skottulækningar harðbannaðar og enginn fær að fást við lækningar, sem ekki hefir tekið próf.

Um Christian Science er það að segja að sá félagsskapur miðar ekki að því að veita mönnum líkamlegar lækningar, heldur er hann trúarbrögð og félagsskapurinn trúflokkur, sem fæst við sálarlækningar að eins með fyrirbænum. Á þessu hefir forstöðukona þess trúflokks rakað saman fé svo að miljónum króna skiftir, en aldrei grætt einn eyri á líkamlegum lækningum. Hún græddi á því, að hver maður í trúflokknum var skyldur til að kaupa bækur hennar, og þær voru — ekki ódýrar.

Háttv. 1. þm. Rang. (E. P.) talaði um, að tilgangurinn með þessu frumv. væri sá að meina mönnum að leita liðsemdar við meinum sínum, En svo er ekki. Tilgangurinn er sá, að hamla því að skottulæknar hafi það að atvinnu sinni að veita mönnum læknisdóma.

Eg fæ ekki skilið það, að þeir menn, sem hafa þá tröllatrú á skotttulækningum, sem lýst hefir sér hér, skuli hafa varið því ódæma fé í læknaskipun, sem gert hefir verið.

Eg vona, að fáir verði til að styðja A-listann, þótt hann sé frá meirihlutanum á þingi.