26.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1279 í B-deild Alþingistíðinda. (1550)

46. mál, lækningaleyfi

Framsögum. (Jón Þorkelsson):

Það er nokkuð öðru máli að gegna með þetta mál, en með sjúkrasamlögin. Þetta frumv. hefir verið borið fram af þm. Vestm. (J. M.) virðulegum. Nefndin hefir rætt mál þetta á allmörgum fundum og íhugað það rækilega og borið sig saman við landlækni og breytingar þær, sem við höfum leyft okkur að stinga upp á og lesa má á þgskj. 692 eru gerðar í samráði við hann flestar hverjar.

Annars mælir frumv. bezt með sér sjálft. Eg skal þó geta þess, að það sem stóð í 1. gr. og mörgum þótti óviðkunnanlegt, er nú numið burt. Nú er miðað við læknaskólann eða hinn væntanlega háskóla hér. Eg skal einnig geta þess, að við höfum ekki með öllu viljað útiloka ólærða lækna, hina svonefndu smáskamtalækna. Eg býst þó við mjög skiftum skoðunum um þetta mál og þykir mér því leitt, að háttv. 1. þm. G.-K. (B. Kr.) skuli ekki vera hér viðstaddur nú, því hann hefir haft einna mestan áhuga á því.