26.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1283 í B-deild Alþingistíðinda. (1555)

46. mál, lækningaleyfi

Eggert Pálsson:

Háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ól.) fór að segja sögu — sögu, sem hann sjálfsagt er búinn að segja oftar en einu sinni hér í deildinni því til sönnunar, að smáskamtalæknar hefðu stundum reynst illa.

Eg skal nú fara að dæmi hans og leyfa mér að segja aðra sögu, sem sannar það, að hinum lærðu læknum getur líka skjátlast. Að vísu lifir enn þá sjúklingur sá, sem saga mín ræðir um en »diagnosis« hinna lærðu lækna gat þó valdið og orsakað honum og aðstandendum hans allmikil óþægindi. Saga mín er á þessa leið: Það var kona nokkur í sveit, sem veiktist all einkennilega. Héraðslæknirinn — sem talinn er annars afbragðslæknir — óttaðist fyrir að sjúkdómurinn væri illkynjaður og ráðlagði að konan færi suður til Reykjavíkur til þess að sjúkdómurinn yrði þar rannsakaður betur. Gekk hún þar fyrir einhvern merkasta lækninn, sem reyndist á sömu skoðun og héraðslæknirinn og vísaði henni til sjálfs holdsveikislæknisins, sem kvað upp þann dóm, að í konunni mundi holdsveiki búa. Og lá þannig við borð, að hana yrði að rífa frá heimili sínu, eiginmanni og börnum og flytja hana á holdsveikraspítalann. En að það ekki var gert kom til af því, að tveir smáskamtalæknar, sem til var líka leitað, úrskurðuðu báðir að sjúkdómurinn væri að eins taugaveiklun á háu stigi og létu henni í té meðul samkvæmt því. Og afleiðingin varð sú að konunni — sem að áliti hinna lærðu lækna átti að vera holdsveik — batnaði, svo að ekki ber á þeim sjúkdómi framar og eru þó nú liðin 3—4 ár síðan. Þetta sýnir, að lærðum læknum getur einnig skjátlast, eins og hinum svo nefndu ólærðu læknum. Og þetta er ekki nema eðlilegt, því það getur öllum skjátlast. En hvað læknisstarfsemina áhrærir, þá er og verður mest komið undir því, að læknirinn sé vel til starfans fallinn. Það er meira vert en kunnáttan að menn hafi »interesse« fyrir verkinu. Hafi þeir það, þá verða þeir góðir læknar, en annars ekki, hvað mikið sem þeir hafa drukkið í sig af bókviti. En sá er munurinn, að margur les læknisfræði án þess að hafa »interesse«, en enginn fæst við skottulækningar, nema hann sé hneigður fyrir lækningar.