26.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1289 í B-deild Alþingistíðinda. (1559)

46. mál, lækningaleyfi

Bjarni Jónsson:

Það er auðheyrt af rökum jafn rökfims manns og háttv. framsögum. (J. Þ.) hvernig mál þetta er vaxið. Menn gera ekki gys að sínum eigin málstað, nema hann sé slæmur. Viðvíkjandi umsókn minni, sem háttv. framsögumaður gat um, um heiðurslaun til þekts geldingamanns vestur í Dalasýslu, þá skal eg geta þess, að það er hreinn misskilningur, að eg sé sjálfum mér nokkuð ósamkvæmur, þótt eg sé á móti 1. gr. þessa frumv. Eg hefi margtekið það fram, að mér stæði alveg á sama, hvaðan þekkingin kæmi, ef hún væri til og þessi maður hafði næga þekkingu á sínu starfi, þótt hann hefði ekki stundað nám á dýralæknisskóla suður í Danmörku. Hann var því enginn skottugeldari, ef svo má kveða að orði og þessi umsókn kemur því málinu ekki minstu vitund við. Eg hefi ekkert á móti því, að ólærðir menn fái að fást við lækningar, ef þeir sýna það og sanna fyrir landlækni, eða einhverjum manni, sem vit hefir á, að þeir hafi skilyrði til þess. En eg er gegn því að »ignorantia crassa« eða sauðheimskan fái að ríkja svo, að menn sem enga þekkingu hafa, fái óáreittir að ganga um og þykjast lækna með allskonar kynjameðulum, til þess að blekkja fáfrótt fólk og hafa út úr því peninga. Hið upprunalega frumv. fór að eins fram á það, að menn sýndu næga þekkingu á læknisstörfum, áður en þeir færu að gegna þeim. Það virðist ekki ósanngjarnt, þar sem hið sama er heimtað af öllum skólagengnum læknum. Þeir verða að standast sín próf til þess að geta fengið nokkurt embætti. En ef það er svo auðvelt að afla sér þekkingar á læknisfræði og sumir háttv. þm. halda fram, af hverju spörum við okkur þá ekki allan þann órakostnað, sem við höfum bæði af læknaskólanum og læknaskipuninni yfir höfuð? Það væri þá víst bezta ráðið að hætta við það alt saman og leita eingöngu til skottulæknanna á bæjunum kringum háttv. 1. þm. Rangv. (E. P.).

Það hefir aldrei verið farið fram á það, að útiloka nærfærna menn frá hjálp í viðlögum. Eg get sannað það, hvað mig snertir, með því, að þegar eg var formaður í alþýðufræðslunefnd Stúdentafélagsins, þá fékk eg Guðmund Magnússon læknaskólakennara til þess að halda fyrirlestra fyrir sjómenn og kenna þeim hjálp í viðlögum. Ef læknar landsins vildu nú útiloka menn frá því, hvers vegna skyldu þeir þá vera að fræða menn um það, sem gæti leitt til samkepni við þá.

Háttv. 1. þm. Rang. (E. P.) sagði, að með frumv. væri verið að ofsækja beztu mennina, en eg verð að vísa því til baka. Eg hefi aldrei gert það og frv. gerir það ekki heldur, þó að heimtuð séu hin sömu skilyrði af smáskamtalæknunum og öðrum læknum. Eg er annars hissa á því, hvers vegna þessir menn, sem telja smáskamtana svona sjálfsagða og bráðnauðsynlega, vilja ekki eins láta lækna með stórskömtum, svo sem 20—30 bjórum. Eg skyldi þá setja mig niður sem stórskamtalæknir og gera ennþá meiri kraftaverk en hinir og sýna mönnum hvað aðflutningsbannið hefir verið vel hugsað, því ekki eru færri sögurnar um öll gæði vínsins og kraft þess gegn ýmsum óþægindum en kjaftakerlingasögurnar um kraftaverk skottulæknanna.

Mér virðist það því dálítil mótsögn hjá þessum sömu mönnum, sem vilja láta skottulæknana leika lausum hala, vegna allra kraftaverkanna, að vera með aðflutningsbanninu.

Svo skal eg að eins geta þess viðvíkjandi 1. gr., að eg er á móti brtill. nefndarinnar, þó að hún sé nokkuð til bóta. Við 3. umr. er hægt að koma með brtill. við 1. gr., sem miða að því að lagfæra einhverja smágalla á henni. Annars nenni eg ekki að vera að þrátta lengur um þetta mál. Fyndninni og gamanyrðum háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) þarf eg ekki að vera að svara. Það getur verið gaman að hlusta á það, meðan hann er að tala, en eltingaleikur hans eftir fyndni getur þó orðið helst til langur stundum.