27.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 210 í B-deild Alþingistíðinda. (156)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Ari Jónsson:

Eg ætla fyrst að minnast á brtill. frá mér á þingsk. 769, sem fer fram á að breyta svo styrk þeim, sem á fjárlögunum er heimilaður Guðmundi Guðmundssyni skáldi, að fyrir 400 krónur hvort árið komi 600 kr. hvort árið eða með öðrum orðum, að styrkurinn sé hækkaður um 200 kr. á ári. Mér hefir fundist það óréttlátt í hlutfalli við styrkveitingar til ýmsra annara skálda, að Guðmundur Guðmundsson skuli vera svona lágt settur. Þessi hækkun, sem eg fer fram á, munar ekki miklu fyrir landsjóðinn, en þörfin mun ekki síðri hjá þessu skáldi en hjá hinum. Hvað réttmæti þessarar hækkunar að öðru leyti snertir, þá hefir þetta sísyngjandi skáld kveðið svo fagurlega, að hann ætti hana margfaldlega skilið og þótt meira væri. Hann hefir nýlega gefið út nýjan ljóðabálk, sem að flestra dómi er snildarlega kveðinn, hverja skoðun sem menn annars hafa í trúarefnum. Enda hefir það eigi verið sjaldan, að skáld þetta hefir sýnt mikla ljóðsnild. Eg vona að háttv. deildarmenn kunni svo vel að meta ljóðsnilli, að þeir sýni skáldinu þann sóma, að hækka styrkinn um þessa litlu upphæð.

Þá á eg aðra brtill. á þingsk. 768, tilmæli um, að 800 kr. styrkur sé veittur Pétri Jónssyni stúdent í Kaupmannahöfn til fullkomnunar í sönglist. Pétur Jónsson hefir þegar fengið mikla viðurkenningu sem söngmaður. Hann hefir ekki eingöngu hlotið lof yfirleitt alstaðar, þar sem hann hefir sungið fyrir fólk, heldur hefir hann og hlotið álit fyrir það, að þegar margir tugir karlmanna síðastliðið vor sóttu um inngöngu í operuskóla konunglega leikhússins í Kaupmannahöfn, þá skaraði þessi Íslendingur langt fram úr öllum og var einn tekinn. Hann vakti þá strax eftirtekt leikhússtjórans, Dr. Mantziusar og Rung söngstjóra, og fylgja styrkbeiðni hans beztu meðmæli frá þeim. Þörfin á styrk er hér mikil; hann á fátæka foreldra hér í bænum, sem ekki geta styrkt hann, og sjálfur er hann ekki einfær til þess að komast vel áfram. Að vísu er hann ráðinn til Þýzkalands með allgóðu kaupi, en ef hann ætlar að gera sönglistina að lífsstarfi sínu, þá þarf hann fé til að geta aflað sér fullkominnar kenslu, svo þó að hann geti unnið fyrir sér nú, þá vantar hann fé til að geta stundað námið. Sú kensla er afardýr, eins og allir vita, og því hefir hann snúið sér til alþingis. Eg er viss um, að Pétur Jónsson muni verða landinu til sóma í þessari list, geti hann fullnumað sig í henni.

Að síðustu vildi eg víkja fáeinum orðum, í viðbót við það sem háttv. síðasti ræðumæður sagði, að einni breytingartillögu nefndarinnar, brtill. um að lækka styrkinn til Þorsteins skálds Erlingssonar. Mér finst furðu einkennilegt, að slík breytingartillaga skuli hafa komið fram. Mér finst vegur okkar þingmanna að minni, ef við færum nú að sneiða af þessari óstóru upphæð, sem hann hefir haft. Þörfin til styrksins er sú sama hjá honum og að leggjast hér á móti sjúkum manni finst mér ærið óaðgengilegt. En það er þó ekki aðalatriðið, heldur hitt, að þessi maður er einn sá mesti og „popúlerasti“ Lyriker sem nú er uppi hér á landi. Hann hefir sýnt svo mikla snild í ljóðum sínum, að sumir söngvarnir hans mega teljast meðal fegurstu gimsteinanna í ljóðasafni vor Íslendinga. Enda er margur Íslendingurinn svo hugfanginn af ljóðum Þorsteins, að það mundi verða talin ósæmd hin mesta, að leggja tálmanir í veginn fyrir framhald á ljóðagerð hans. Eg veit, að þjóðin mundi misvirða við okkur, ef við förum illa með hann nú, færum að sneiða af styrknum til hans. Hann hefir fengið svo fast álit hjá þjóðinni, að það er gagnslaust að vera að hnjóða í hann, þótt einhverja óvini hans langi til þess; þeir ná ekki tilgangi sínum með því. Háttv. framsm. fann að því, að það hefði ekki komið mikið fram eftir hann í seinni tíð. En þar til er því að svara, að maðurinn er ákaflega vandvirkur, hann yrkir svo vel, að hann lætur ekki frá sér fara nema það sem snild er að. Þetta veit eg, að menn viðurkenna. Enn fremur er svo komið, að hann hefir lokið kvæðabálk og hefir undirbúið mikið af bókinni, sem mun koma út bráðlega. Það eru margar arkir af henni hreinskrifaðar til sýnis. Það er því von á nýrri bók, sem ekki mun síðri en Þyrnar. Mér finst það óhæfilegt að lækka styrkinn til hans, þegar að því er komið að gefa bókina út; mér finst það væri eins og að reyta af söngfuglinum fjaðrirnar, þegar hann ætlar að fara að syngja vornæturkvæðið sitt í annað sinn.