28.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1300 í B-deild Alþingistíðinda. (1571)

46. mál, lækningaleyfi

Jón Jónsson (l.þm.N.-Múl.):

Háttv. framsm. (J. Þ.) talaði um, að landlæknir hefði verið nefndinni samþykkur. Eg er ekki í minsta vafa um, að landlæknir hefir heilbrigða skoðun á þessu máli, og er í hjarta sínu móti smáskamtalækningum. H. framsm. sagði ennfremur, að það væri saklaust og skaðlaust, að leita smáskamtalækna. Það getur verið, en ekki er það hættulaust ávalt. Og fjárhagsástæður manna hafa ávalt nokkuð að segja í þessu máli. Það hefir einnig töluvert að segja, ef smáskamtalæknirinn er vinsæll og laginn, þá er stór hætta á því, að menn vanræki að sækja héraðslækninn, en sæki heldur dropa til þessara manna, sem ekkert vit hafa á lækningum og á þann hátt getur þetta kostað margan mann lífið.

Háttv. 1. þm. Rang. (E. P.) talaði um, að eg væri að »experimentera« á þingmönnum. Eg mótmæli því. Eins og háttv. þm. Dal. (B. J.) tók fram, þá eru þessi ákvæði í tillðgum nefndarinnar, en tillögur nefndarinnar ganga skemra en mínar tillögur. Ýms ákvæði voru í tillögum nefndarinnar, er allir vildu samþykkja. Það var skottulæknaákvæðið, sem hnýtt var inn í þær, er margir voru á móti. Var það þó samþykt með vegna annara breytinga, þótt það væri ýmsum móti skapi. Háttv. 1. þm. Rang. (E. P.) þótti það hart, að mönnum væri bannað að leita sér hjálpar, hjá þeim mönnum, sem þeir bæru traust til. En þetta traust er bygt á misskilningi hjá fólkinu. Eins og kunnugt er, þá kemur það oft fyrir, þegar einhver legst veikur, þá er oft ágreiningur milli vandamannanna, hvern sækja skuli, sumir vilja sækja skottulækninn, og er það því oft undir hælinn lagt, hver sóttur er; og því miður kemur það víst fyrir hér sem víðar, að sá ræður sem vitið hefir minna. Eg vona, að sú skoðun verði viðurkend hér, að skottulæknarnir séu ónýtir og eigi ekki að líðast.