28.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1301 í B-deild Alþingistíðinda. (1572)

46. mál, lækningaleyfi

Einar Jónsson:

Þetta mál, sem hér liggur fyrir, á skylt við önnur mál, sem eru því þó óviðkomandi. Hvað ætli presturinn mundi gera, ef hvaða maður sem vildi og til kirkjunnar kæmi mætti fara upp í stólinn og prédika? Hvað gerði bankastjórinn, ef einhver settist í sæti hans niðri í banka og færi þar að fást við bankastjórans störf? Hér eru læknar skipaðir af landsstjórninni, en þó má hvaða fúskari sem vill fást við lækningar, ef hann aðeins kann að halda á bók, það gerir ekkert til, þótt hann skilji ekki eitt orð af því, sem í bókinni stendur. Og það á sér víst oft stað. Eg hefi sjálfur verið sendur til homöopata. Þegar eg hafði lýst sjúklingnum, fór hann að blaða í þýzkri bók. Þegar hann hafði gert það um stund, fór hann að taka til meðulin. En þau hjálpuðu ekki, maðurinn dó. Smáskamtalæknarnir gefa dropa við öllu. Ef manni verður ilt í fingri, þá á hann að taka dropa. Alopatarnir nota þó kunnáttu sína. Þetta er svo fráleitt, að eg álít að það ætti ekki að þolast að leyfa þeim mönnum, sem ekkert vit hafa á lækningum, að vera að fást við þær. Ef þingið leyfir öllum að fást við lækningar, hvers vegna er þá verið að launa lækna? Lofa fólkinu að læknast af trú sinni. Það væri mikill sparnaður fyrir landssjóðinn, ef hann þyrfti ekki að launa neinum læknum.

Eg veit ekki, hvort deildin vinnur nokkru sinni nokkuð þarfara verk en að sporna á móti því, að þessir ólærðu menn séu að sletta sér fram í það, sem þeir hafa ekkert vit á.