28.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1306 í B-deild Alþingistíðinda. (1577)

46. mál, lækningaleyfi

Jón Magnússon:

Það er að eins dálítil athugasemd viðvíkjandi einu atriði í ræðu háttv. 1. þm. G.-K. (B. Kr.) vegna þess, að eg var flutningsmaður frumv. inn á þingið. Háttv. þm. er altaf að tala um það, að frumv. hafi útilokað ólærða lækna frá því að hafa rétt til að lækna. Þetta er alls ekki rétt, ólærðir læknar geta eftir frv, alveg eins fengið rétt til að lækna eins og lærðir læknar, að eins er það heimtað af þeim eins og öðrum, að þeir sýni, að þeir hafi einhverja læknisfræðislega þekkingu. Þetta virðist ekki svo margbrotið, að erfitt sé að skilja það og ætti ekki að verða neinn þröskuldur fyrir ólærðu læknunum, því að þeir virðast ekki vera lengi að nema fræðin.

Hvað það snertir, sem háttv. þm. tók fram, að nefndarmenn álitu sig ekki bundna við till. nefndarinnar, þá er það hvað mér viðvíkur ekki rétt. Eg álít mig einmitt bundinn til þess að greiða atkvæði tillögum nefndarinnar, þótt það sé móti vilja mínum. Svo mikið álít eg þó, að eg hafi leyfi til að segja.

Það hefir verið mikið talað um það í dag, hvort betra væri, að læknar hefðu einhverja þekkingu eða ekki. Háttv. þm. Dal. (B. J.) hefir verið svo óvarfærinn að halda því fram, að betra væri að hafa einhverja þekkingu, en aðrir hafa haldið því fram, að þeir þyrftu ekkert að vita. Háttv. þm. Dal. (B. J.) verður líklega að sætta sig við þetta og láta sér nægja, að aðrir dæmi um það.

Eg sé svo ekki ástæðu til að lengja umræður mikið meira, býst við, að flestir séu orðnir ráðnir í því, hvernig þeir greiða atkvæði.