07.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1308 í B-deild Alþingistíðinda. (1580)

45. mál, stofnun lagaskóla á Íslandi

Flutningsmaður (Jón Magnússon):

Það er eftir beiðni 3 lögfræðisnema við háskólann í Kaupmannahöfn að eg kem fram með frumv. þetta. Á lestrarstofunni hér er lagt fram erindi frá sömu nemendum, um að lagaskólalögunum verði breytt þannig, að fresturinn verði lengdur um 1½ ár. Eg býst við að hinni háttv. deild sé kunnugt um ástæðuna fyrir beiðni þessari og því óþarft að fara mörgum orðum um þær og eg veit að hinni háttv. deild hlýtur að skiljast, að beiðni þessi er sanngjörn, því að ef henni væri ekki sint, yrðu þessir 3 nemendur mjög hart úti. Þeir áttu ekki kost á að velja milli háskólans í Kaupmannahöfn og lagaskólans hér, því að lagaskólinn var ekki tekinn til starfa, þá er þeir byrjuðu á náminu. En lagaákvæðið hlýtur að vera bygt á því, að mönnum sé gefinn kostur á að velja milli skólanna. Eg hefi heyrt sagt, að í ráði sé að skipa nefnd í málið, sérstaklega með tilliti til annars frumv., sem hér er á ferðinni, um forgangsrétt kandídata frá háskólanum væntanlega, en eg skil ekki, hvað nefnd ætti að gera í jafn einföldu máli, né að það þurfi að koma í bága við nýnefnt frumv. Hér er einungis að ræða um að laga eitt lagaákvæði og nema burtu misrétti. Vona eg að mál þetta nái fram að ganga.