09.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1311 í B-deild Alþingistíðinda. (1588)

45. mál, stofnun lagaskóla á Íslandi

Skúli Thoroddsen:

Eg hefi leyft mér að koma með brtill. við frv. þetta þannig lagaða, að í staðinn fyrir l½ ár komi 3 ár, og verður þá fresturinn alls 6 ár, frá því er lagaskólinn tók til starfa. Ef frv. næði fram að ganga óbreytt, yrðu það ekki nema 3 menn, er nytu góðs af því, en nú eru þeir alls 9, er stunda lögfræðisnám við háskólann í Kaupm.höfn. Og er það leiðinlegt að veita sumum þeirra þessa undanþágu, en ekki öllum. Það eru margir, sem lesa lögfræði nú á tímum, og eiga flestir þeirra manna sárlitlu að að hverfa að loknu námi. Þetta er ekki annað en tilhliðrunarsemi að spara þessum mönnum kostnað og tíma. Það er ekki hætt við því, að þetta dragi neinn dilk á eftir sér. Það kemur ekki til þess, að þessi undanþága verði veitt oftar, enda ekki við að búast, að öllu fleiri sigli til Kaupmannahafnar til þess að stunda lögfræði héðan af, úr því að lagaskólinn er tekinn til starfa, og fer nú að fullkomnast smám saman. Eg vona það, að háttv. þm. verði ekki á móti þessari litlu brtill., sem er algerlega í samræmi við tilgang frv.