09.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1312 í B-deild Alþingistíðinda. (1590)

45. mál, stofnun lagaskóla á Íslandi

Skúli Thoroddsen:

Eg bjóst ekki við þessari mótspyrnu úr þessari átt, og eg get ekki kallað það annað en meinsemi. Háttv. þm. Vestm. (J. M.). sagði, að stúdentar frá 1908 geti náð því að losna við aukaprófið, samkvæmt frumv. Hann gerir þá ekki ráð fyrir neinu, sem geti hindrað þá frá því að að taka próf á skemsta tíma sem verða má, hvorki veikindum eða öðru, því að ef nokkuð slíkt kemur fyrir, þá ná þeir því auðvitað ekki. Að vísu er þetta ekki neitt sjálfsagt, sem endilega verði fram að ganga, heldur eingöngu tilhliðrun, og með því vinnum við þarft verk þeim, sem hlut eiga að máli. Og að þetta sæti mótspyrnu af hálfu lagaskólakennaranna, það er mér ómögulegt að skilja. Hér er ekki verið að skerða réttindi lagaskólans á neinn hátt; þau verða eins, þó þessi tilhliðrun sé gerð við einstaka menn.