09.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1312 í B-deild Alþingistíðinda. (1591)

45. mál, stofnun lagaskóla á Íslandi

Jón Þorkelsson :

Eg skal játa, að mér er nú þetta ekki neitt kappsmál, en álít þó rétt að kippa þessu máli út af dagskrá, og bíða eftir frv. um forgöngurétt kandídata frá ísl. háskólanum, til embætta hér á landi. Þar eru ákvæði í 4. gr., reyndar ekki samhljóða þessari breyttill. og ekki heldur frumv. háttv. þm., heldur er þar farið bil beggja. Þar er gert ráð fyrir 5 árum eftir það er lagaskólinn var stofnaður, og skal eg geta þess, að einn lagaskólakennarinn hefir diktað það frumvarp fyrir mig.

Mér skilst það vel, að það sé sanngjarnt að miða við 6 ár, því vel getur staðið svo á, að stúdentar nái ekki prófi fyr, þótt þeir hafi verið gengnir á háskólann, áður en lögin voru samþ. 1907. Þá er þeim fyrirmunað að sleppa við aukaprófið, og þarf þó þessi dráttur ekki að stafa af slóðaskap né hæfileikaskorti. Enginn skilji orð mín svo, að eg vilji draga lögfræðinga landsins undan nauðsynlegri fræðslu í íslenzkum lögum, og þá sízt þeirri, sem sjálfsögðust er, og hvergi verður kend jafnvel annarstaðar, en það er réttarsaga landsins sjálfs.

En gæta verða menn jafnréttis, og brtill. þessi er ekki ósanngjörn, svo að ef frv. ætti fram að ganga, þá ætti hún að verða samþ. Eg ætlast til þess, að það frumv. verði sett í nefnd, og þessu frumv. svo vísað þangað. Auðvitað má nú vísa því til 3. umr., en helzt vildi eg að það yrði tekið út af dagskrá.