29.04.1911
Sameinað þing: 27. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 23 í B-deild Alþingistíðinda. (16)

4. mál, styrkveiting úr landssjóði til búnaðarfélaga

Bjarni Jónsson:

Eg skal ekki deila um þessar breytingartill., þær skifta litlu máli, og líka sú seinasta, sem eg ætla að tala um. Eg lagði áherzlu á það, þegar þetta mál var í neðri deild, að íslenzk heiti væru höfð í stað útlendra vanskapninga. Það hefir ekki verið samþykt í efri deild, heldur hefir hún í staðinn tekið upp m1, m2, m3. Það þykir mér langtum betra, en að hafa orðskrípi þau, fransk-latnesk-grísk, sem farið er fram á í br.till. Það skaðar ekki íslenzkan málsmekk manna að segja m í þriðja veldi eða m í öðru, o. s. frv., því m-ið er nú einusinni komið í stafrófið. Verði br.till. samþykt, verður fermetri óbeygjanlegt eins og t. d. í 2. lið, þar sem talað er um 50 m2, það verða þá 50 fermetri, og flóðgarðar í sama lið, sex rúmmetri. (Sig. Sig.: þetta er hártogun, orðið beygist.) Það er engin hártogun, en ef maður er velviljaður, má ef til vill skilja br.till. svo. Eg mæli þessvegna með, að br.till. sé feld, en m látið halda sér.