10.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1321 í B-deild Alþingistíðinda. (1610)

67. mál, réttur kvenna

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Það er þarft réttlætisverk að flytja frumv. þetta inn á þing, enda hefi eg ekki stað­ið upp til að mótmæla því. Það sem eg kynni að vilja athuga við frumvarpið læt eg bíða til næstu umr. Að eins vil eg minnast lítið sitt á 3. gr., þar sem konum er heimilaður réttur til allra em­bætta. Mér dettur í hug vísa Sigurðar Péturssonar:

„Dómarasæti aldrei í eikur sitja hringa,

því löngum grunur lék á því, þær láti sig undirstinga“.

Ekki er eg samt svo hræddur um, að þær muni bresta siðferðislega hæfileika til þess að gegna t. d. dómarastörfum eða verði mútuþegar, eins og vísan bend­ir til. En það er ýmislegt annað, sem mælir á móti, að konur geti verið sýslumenn hér á landi. Margar sýslur eru svo strjálbygðar og erfiðar yfirsóknar, að hverri konu er ofætlun að hafa þar sýslumannsembætti á hendi. Þar að auki geta giftar konur — og raunar ógiftar líka — haft náttúrleg forföll, og mundi það t. d. í Austur-Skaftafellssýslu þykja heldur óhagræði, ef sýslumaður­inn lægi á sæng, þegar hans væri vitj­að til að rannsaka glæpamál eða kveða upp varðhaldsúrskurð, eða tæki léttasóttina, þegar hún væri á manntalsþinga­ferð. — Eg mun styðja málið, en vildi að eins vekja athygl á, hvort eigi mundi réttast, að undanþiggja lögreglustjóra- og dómaraembætti undan fyrirmælum 3. gr., að minsta kosti þar til konur eru af fertugsaldri.