10.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1323 í B-deild Alþingistíðinda. (1612)

67. mál, réttur kvenna

Flutningsmaður (Hannes Hafstein):

Eg ímynda mér, að þótt nefnd yrði skipuð í þetta mál, þá fyndi hún enga vegi til þess að hindra, að em­bættismenn gætu sýkst eða forfallast. Ef menn á annað borð eru hlyntir hugs­uninni í frumvarpinu, þá finst mér nefnd óþörf. Hér er um engar millileiðir að ræða. Jafnrétti eða ekki jafnrétti. Nei eða já. Séu menn jafnréttisheimildinni ósamþykkir, þá er bezt að fella frumv. strax. Mér fanst mótbára hins háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ól.) fremur létt á metunum. Að liggja á sæng er ekki nándar nærri eins hættulegt, eins og margir sjúkdómar, sem karlmenn fá engu síður en konur. Karlmenn geta engu síður en konur, á ýmsan hátt orðið frá verki, og yfirleitt efast eg um, að karlmenn séu alment hraustari, úthaldsbetri eða þrautseigari heldur en hraustar konur. Kvenfólkið finnur það sjálft, hvort það getur gegnt þeim em­bættum, sem þær sækja um, og sækir ekki eftir því, sem er móti eðli þeirra og megni. Eftirtektavert er, að kven­menn, sem fengið hafa allvel launaðar stöður við opinberar stofnanir hér á landi, t. d. landsímann, hafa allar sótt um lausn, er þær hafa gifst. Ef meta skal, til hverra embætta konur eru sízt fallnar hér á landi, þá eru það ekki sýslumannsembættin heldur sum héraðslæknisembættin. Það stendur sjaldnast á mjög miklu, þótt ekki náist til sýslumanns í skjótu bragði, en læknarnir þurfa ætíð strax að geta brugðið við, og oft er mikið undir því komið, að þeir séu allra ferða færir þótt færð sé ill og fjöllin brött. Þó hafa yfirsetukonur get­að þjónað örðugum umdæmum svo vel, að karlmenn munu tæpast gera betur, og ef kona er svo hraust að burðum, að hún getur rækt svo erfitt starf, því mundi hún þá ekki geta þjónað öðrum embættum? Hvers vegna mega yfirleitt ekki þær konur, sem að öllu leyti eru eins starfsfærar og karlmenn hafa sama rétt til starfans, eins og þeir?

Helzt hafði eg búist við, að kirkjunn­ar menn kynnu að hafa eitthvað á móti frv. vegna trúarbragðanna, en eg hefi ekki getað fundið, að það komi í bág við neitt í kirkjulögum vorum, að kven­fólk hafi prestslega þjónustu. Í öðrum löndum, sérstaklega í Norður-Ameríku, er það altítt, að konur taki prestvígslu og eg hefi heyrt, að í Noregi sé nú bú­ist við að kona, sem er cand. theol. frá háskólanum í Kristjaníu, komist í klerklega stöðu. Mér virðist ástæðulaust að skipa nefnd, það eina, sem nefnd kynni að geta gert, væri að bæta eitthvað orðalag frumvarpsins; við efninu er ekki annað að gera, en segja já eða nei.