13.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1324 í B-deild Alþingistíðinda. (1615)

67. mál, réttur kvenna

Jón Jónsson (1. þm. N.-Múl.):

Eg verð að líta svo á þetta mál, að það sé þannig lagað, að ekki eigi að samþykkja það. Eg álít, að karlmenn séu miklu færari um að gæta opinberra starfa en kvenfólk. Konur eiga að vera mæður barna sinna og gæta húsmóðurstarfa á heimilinu. Til þess að gæta húsmóðurstarfa á heimilinu og sinna börnum, meðan þau eru ung, eru þær miklu hæfari en karlmenn. Við 1. umr. var það tekið fram, að það gæti verið óheppilegt, að kona væri dómari, og það gæti komið sér illa, að dómarinn lægi á sæng, þegar hann ætti að sinna dómarastörfum. Sama getur átt sér stað með lækna, ef kona væri læknir. Það væri afkáralegt, að konan væri á sífeldu flakki og ferðalagi, en bóndinn sæti heima og gætti barnanna. Þetta finst mér vera öfugt við það, sem það ætti að vera. (Sigurður Sigurðsson: Þær gætu hætt að gifta sig). Já, ef þingið tæki í taumana og bannaði konum að eiga börn. En ekki yrði það til framfara fyrir þjóðfélagið. Nú hafa konur aðgang að öllum skólum hér á landi nema lagaskólanum. Mér finnst að það megi vel una við það sem er.