13.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1336 í B-deild Alþingistíðinda. (1622)

67. mál, réttur kvenna

Eggert Pálsson:

Eg bjóst við að frumv. þetta mundi ganga umræðulítið gegnum háttv. deild. Það er svo sanngjarnt, að eg held, að mótmælendur þess mótmæli því fremur af gamni en alvöru, eða að mótmæli þessi séu meira gerð til þess að sýnast en til þess að vinna á móti frumvarpinu í raun og veru. Mótmælendur frumv. hafa viður­kent, að 1. og 2. gr. þess ætti að verða að lögum. En þeir hafa þótst finna 3 ástæður fyrir því, að þeir séu mótfallnir ákvæðum 3. gr. Fyrsta ástæðan er sú, að ef konur fengju jafnrétti við karl­menn til embætta mundu þær hætta móður- og húsmóðurstörfum sínum. Önnur ástæðan er sú, að konur geti ekki gegnt embættum eins vel og karlmenn, og þriðja ástæðan er, að jafnrétti kvenna og karla til embætta stríði á móti kristn­um fræðum.

Ef ástæður þessar eru metnar, þykist eg viss um að engum muni blandast hugur um, að 1. ástæðan er ekki svara­verð. Hverjum getur dottið í hug, að konur muni fara að ganga á móti eðli sínu, þótt misréttið á milli þeirra og karlmanna verði afnumið? Þær mundu yfirleitt eftir sem áður giftast og verða bæði mæður og húsmæður, eftir því sem kringumstæður væru til og þær eigi á neinn hátt rækja síður skyldur þær, sem við þá lífsstöðu eru bundnar, þótt þær hefðu sama rétt sem karlmennirnir. En það er og verður æfinlega svo, að það eru ekki allar konur, er hugsa um að giftast; og ef einhver slík kona hefir tekið próf, sem gerir hana færa til em­bættisreksturs, því skyldi hún þá ekki mega njóta ávaxtanna af því. Og þó um gifta konu væri að ræða, þá getur það átt sér stað, að hún væri betur fallin til annars en að skamta, eða að bónda og börnum væri betra að hún gerði ann­að en einmitt það. Og hví skyldi hún þá ekki mega eða hafa fullan rétt til að beita hæfileikum sínum á þann hátt, sem henni og heimilinu yfir höfuð að tala væri haganlegast?

Önnur ástæðan á móti frumv. er harla undarleg, sem sé sú, að konur geti ekki vegna eðlisfars gegnt embætti eins vel og karlmenn. Geta konur t. d. ekki eins verið læknar sem karlmenn? Eg er ekki í vafa um, að svo sé, enda á ýmsan hátt betur til þess kjörnar. Kon­ur eru hér líka yfirsetukonur og þurfa því að ferðast eins og læknarnir, og ber ekki á öðru en að þeim takist það. Ef konur geta ekki, ferðalaganna vegna, verið læknar, geta þær heldur ekki verið yfirsetukonur, það liggur í augum uppi og þyrfti þá að breyta þessu fyrirkomulagi hér hjá oss og fela karl­mönnum yfirsetustörfin. En það er engin þörf á því. Konur geta verið og eru oft eins duglegar til ferðalaga, eins og karlmennirnir. Þrautseigjan, sem til ferðalaganna útheimtist, er einatt eins mikil og stundum meiri hjá konum, heldur en körlum, og þess vegna geta þær engu síður en karlmennirnir gegnt læknastörfum hér hjá oss. Það getur auðvitað borið við, að kona leggist á sæng á óhentugum tíma ef læknir væri, en það kemur einnig fyrir yfirsetukonur. Og meira að segja karllæknar geta einnig veikst og það valdið óþægindum.

Hvað þriðju ástæðuna snertir, að það stríði á móti kristnum fræðum að veita konum sama rétt sem karlmönnum, þá kannast eg ekki við, að það hafi við nokkuð að styðjast. Það er ekki rétt, er háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) sagði, að í vorum trúarbrögðum væri konum bannað að vera prestar. Kristindómurinn getur þvert á móti lagað sig eftir öllum þjóð­félagsskipunum, hvernig svo að segja sem fyrirkomulag þjóðfélagsins kann að vera. Þá er þrælaverzlunin átti sér stað, var kristindómurinn notaður til þess að halda vörnum uppi fyrir henni. En nú er svo komið, að enginn vill mæla henni bót. Það er því einmitt samkvæmt en ekki gagnstætt anda kristindómsins, að konur hafi í öllu jafnrétti við karlmenn. Því það er andi réttlætisins og sanngirninnar, sem hann hefir til að bera, en ekki andi rangsleitninnar og ósanngirninnar.