13.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1338 í B-deild Alþingistíðinda. (1623)

67. mál, réttur kvenna

Jón Sigurðsson:

Háttv. 1. þm. Rang. (E. P.) hefir rakið glögglega mótbárur þær, er fram hafa komið gegn frumv. þessu, og benti hann á, að þær mundu ekki vera alvara, heldur að eins til þess að sýnast. Aðalatriðið í frumv. er að afnema misréttið milli kvenna og karla og veita konum aðgang að em­bættum og skólum. Þetta er svo sjálfsagt, að mig furðar á, að nokkur hinna háttv. þm. skuli geta fengið af sér að andmæla þessu. Á fyrri tímum voru konurnar, hvað réttindi snertir, miklu ver settar en karlmennirnir. En eftir því sem stundir liðu fram hafa konurnar ætíð fengið meiri og meiri réttindi, enda þótt að enn sé mikið misrétti á milli þeirra og karlmannanna. Það er nú mál til komið að afnema þetta misrétti, þessar gömlu leifar. Þess vegna er frv. þetta komið fram.

Ein af mótbárum þeim, er komið hefir fram á móti frv. er sú, að konur geti ekki, eins og karlmennirnir, verið lækn­ar, vegna þess að komið geti fyrir að þær leggist á sæng. En eins og rétti­lega hefir verið bent á, getur það einnig komið fyrir, að yfirsetukonur leggist á sæng, og ekki hefir heyrst getið um, að þær vanræki störf sín þess vegna. Því hefir einnig verið haldið fram, að konurnar væru ekki eins duglegar að ferð­ast og karlmennirnir, en þetta er ekki rétt. Yfirsetukonurnar t. d. eru svo duglegar að ferðast, að fáir karlmenn standa þeim á sporði. Eg vil benda á það, að á síðari tímum eru konur farnar að fá atvinnu á skrifstofum og í sölubúðum og gegna starfa sínum engu síður en karlmenn. Það er hagnaður fyrir vinnuveitendur að hafa konur, því bæði eru þær ekki eins kaupdýrar og karlmenn og svo eru þær skylduræknari og nægjusamari en þeir. Þær hafa einnig ýmsa aðra kosti fram yfir þá til að bera. Eg álít, að konur yfirleitt séu eins vel færar til að gegna embættum og karlmenn. Það eru mörg önnur embætti til en læknaembættin.

Það hefir ennfremur verið sagt, að konur væru síður þroskaðar en karlmenn, en þetta er ekki rétt. Og enda þótt konur nú sem stendur ef til vill stæðu eitthvað á baki karlmönnum, væri það eðlilegt, þar sem þær til skamms tíma voru ekki látnar læra að skrifa, og yfirleitt gefinn mjög lítill kost­ur á að læra. En nú eru þær farnar að taka þátt í stjórnmálum og þeim er nú yfirleitt gefinn meiri kostur á að læra en áður. Það er því alveg rétt að veita þeim jafnrétti við karlmennina, enda mundi slíkt skerpa ábyrgðartilfinninguna hjá konunum. Eg held, að enginn mæli þessu misrétti bót, og er því full nauðsyn að afnema það.