10.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1344 í B-deild Alþingistíðinda. (1632)

66. mál, gjöld til holræsa og gangstétta í Reykjavík

Flutningsm. (Magnús Blöndahl):

Það er óþarfi að fjölyrða mikið um þetta frumv. Það er flutt inn í þingið eftir óskum bæjarstjórnar hér í Reykjavík.

Eg geri ráð fyrir því, að það sé h. þm. ljóst, hvílíkt nauðsynjamál hér er um að ræða fyrir bæinn og að það megi ekki dragast lengur, að fá ákveðnar reglur þessu viðvíkjandi. Það hefir gengið svo hingað til, að holræsi hafa ekki verið gerð, nema þar sem íbúarnir meðfram götunni hafa viljað greiða nokkuð af kostnaðinum sjálfir. Vitaskuld margborgar það sig, að fá holræsi í göturnar, svo að margir eru fúsir til þess, að leggja fram ríflegan skerf af kostnaðinum. En með því fyrirkomulagi hlýtur kostnaðurinn altaf að koma nokkuð ósanngjarnlega niður, því að sumir hafa gefið og munu gefa hlutfallslega meira en þeim ber. En í þessu frumv. er ætlast til þess, að kostnaðurinn komi jafnt niður á alla hús- og lóðareigendur. Þó þannig auðvitað, að það kemur þyngst niður á efnuðu mennina, á þá sem eiga stærstu og dýrustu húsin og lóðirnar meðfram götunum.

Þörfin er orðin enn þá meiri en áður var, eftir að vatnsveitan kom og bæjarstjórnin hefir ekki hingað til séð sér fært að taka svo stórt lán, sem til þess þyrfti, og hún hefir sömuleiðis verið mótfallin því að hækka aukaútsvör bæjarbúa þessa vegna. Enda myndi það þurfa að vera mikil hækkun, ef alt ætti að nást inn á þann hátt. Þess vegna hefir bæjarstjórnin samið þetta frumvarp og falið okkur þingmönnum bæjarins að flytja það hér. Vænti eg, að þetta mál fái góðar undirtektir, en tel þó rétt, að það sé sett í nefnd til þess að íhuga það betur, heldur en gert hefir verið í bæjarstjórninni.