18.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1348 í B-deild Alþingistíðinda. (1640)

66. mál, gjöld til holræsa og gangstétta í Reykjavík

Framsm. (Magnús Blöndahl):

Mér er það ekkert kappsmál, hvort frv. verður tekið út af dagskrá. En mér finnast aðfinslur þær, sem háttv. þm. N.-Þing. (B. Sv.) kom með við frv. ekki vera réttmætar og skal eg nú með nokkrum orðum sýna fram á það.

Háttv. þm. fann frumvarpinu það til foráttu, að það hefði lítið verið rætt í bæjarstjórninni og í bænum og þess vegna vildi hann, að frumvarpið væri tekið aftur eða felt, af því þing ætti að halda næsta ár, og þá væri nægur tími til þess að samþykkja það. Eins og eg tók fram, þá skal eg ekki gera það að kappsmáli, hvort frumvarpið verður tekið út af dagskrá nú. En eg skal geta þess, að öllum íbúum bæjarins er það ljóst, að þetta verk hefði átt að vera unnið fyrir löngu. Þörfin fyrir skolpræsin er orðin mjög knýjandi hér í bænum og hefði átt að vera búið að leggja þau, áður en vatnsveitan var gerð. Og hafi verið nauðsyn að fá skolpræsi áður og sem enginn mun treysta sér til að mótmæla, þá er þörfin ekki minni nú. Eg skal að eins benda á, að öllu því fé, sem nú er varið til þess að gera við götur bæjarins, er sem kastað á glæ, meðan ekki eru komin skolpræsi í göturnar, með því að nú verður að rífa göturnar upp ár eftir ár til þess að leggja niður í þær hinar ýmsu rörleiðslur, fyrir utan það, hversu mikill heilsuspillir er að því, að fólk það, sem í húsunum býr getur ekki komið frá sér skolpinu, á neinn viðunanlegan hátt. Að frumv. hefir ekki verið rætt hér í deildinni er ekki skuld flutningsmannsins. Hins vegar hefir frumvarpið verið rækilega undirbúið af bæjarstjórninni og rætt þær mjög ítarlega á fleiri fundum, auk þess sem sérstök nefnd hafði það þar til rækilegrar meðferðar.

Að þetta muni verða nokkur kostnaður er ekki nema eðlilegt. En ef ekki verður bráðlega byrjað á því, þá er það ljóst, að stór hætta vofir yfir bænum. Holræsi hafa þegar verið lögð í sumum götum bæjarins og þá hefir oftast verið leitað samninga við húseigendur um framlag frá þeirra hendi til þess verks og það hefir oftast gengið vel, en þó hefir það stundum komið órétt niður, sumir lagt fram miklu meira en þeir að réttu hlutfalli hefðu átt að borga, ef gjaldinu hefði verið jafnað niður eftir slíkum reglum, sem frumvarp þetta setur, en þeir sem vildu hliðra sér hjá því að greiða nokkuð í þessu skyni hafa sloppið með miklu minna gjald en þeim bar. En það er ekki sanngirni, að kostnaðurinn lendi á einstökum mönnum, er um slíkt sameiginlegt nauðsynjaverk er að ræða, en þeir sleppi, sem ekki vilja borga.

Ef frumv. þetta verður ekki samþykt, þá mundi bæjarstjórnin neyðast til að leggja það til, að aukaútsvörin væru hækkuð svo mikið, að mögulegt yrði að framkvæma þetta verk. Ef þetta verður ekki framkvæmt mjög bráðlega, þá getur það kostað bæinn svo mikið, að ekki verði í tölum talið, og á eg þar sérstaklega við óþrifnaðinn og þann heilsuspilli, sem af því leiddi, að skolpræsi verða ekki lögð um götur bæjarins. Það sem húseigendum er ætlað greiða eftir frumvarpinu er ¼ hluti kostnaðarins. Það er áætlað, að holræsagerðin muni kosta c. 160,000 kr. Af þeim er þegar búið að leggja skolpræsi fyrir c. 30,000 kr. Þá er eftir að leggja skolpræsi fyrir c. 130,000 kr., og eiga húseigendur að borga ¼ af þeirri upphæð. Það yrðu þá c. 32 þús. kr., sem húseigendum er ætlað að borga. Háttv. þm. N.-Þing. (B. Sv.) sagði, að ekki sæist á frumv., hvort það ætti að borga þetta í eitt skifti fyrir öll eða þetta yrði áframhaldandi gjald. Eg hélt þetta væri svo ljóst í frv., að það gæti ekki misskilist. Þessi kostnaður á auðvitað ekki að greiðast nema einu sinni, þegar verkinu er lokið. Um viðhaldskostnað er ekki að ræða, því að sjálfsögðu verður bærinn að bera hann að öllu leyti. Annars hygg eg, að ekki muni til hans koma í langri framtíð, því viðhaldskostnaður á slíku verki getur aldrei orðið mikill. Hér er um svo lágt gjald að ræða, að mig stórfurðar, að nokkur skuli í alvöru koma með þá grýlu, sem mótbárur gegn frumv. þessu. Því um leið og verk þetta miðar að því að auka þrifnað og vellíðan í bænum, þá mun það hækka fasteignir bæjarins í verði, og eg hélt því, að fasteignamenn bæjarins mundu því sízt hafa ástæðu til að vera á móti þessu.

Hvað viðvíkur því, hvort gjald þetta eigi að ná til erfðafestulanda, þá er því þar til að svara, að fyrst og fremst eru þau hér fá, er komist gætu inn undir ákvæði þessi frumv., og þess utan ekki ætluð til byggingar. En þó svo væri, að erfðafestulönd hér í bænum yrðu talin sem bygt land, þá getur það ekki verið ástæða til að fella frumvarpið. Hitt er það, að sennilegt er, að meiningamunur geti verið um það, hvort við álítum fyrirtækið nauðsynlegt, þarflegt og gott eða ekki. Ef við erum sammála um, að það sé nauðsynlegt, þá hljótum við einnig að vera sammála um það, að þetta er eini vegurinn nú í bráðina til að koma því í framkvæmd. Það verður að gæta þess, að bærinn hefir í mörg horn að líta, og það er ekki nóg að segja við bæjarstjórnina: »Gerið þið þetta«, en vilja ekki leggja fram það fé, er verkið útheimtir. Ekki teldi eg það heppilegri aðferð, að hækka útsvörin í þessu skyni, eða að taka til þess stórlán, þegar mögulegt er hjá því að komast og rétt er að farið.

Háttv. þm. N.-Þing. (B. Sv.) áleit, að afleiðingin af frumv. þessu mundi verða sú, ef það yrði samþykt, að bærinn mundi á eftir koma til þingsins og biðja um ábyrgð. Hvaða ábyrgð? Þingm. hefir sennilega hugsað sér, að bærinn ætlaði sér að taka lán til að framkvæma holræsagerðina, en eg verð harðlega að mótmæla því, að nein slík ábyrgðarbeiðni til landssjóðs hafi vakað fyrir bæjarstjórninni. Þótt bærinn neyddist til að taka lán í þessu skyni, mundi engin ástæða til fyrir bæinn að biðja landssjóð um neina ábyrgð til þeirra hluta. Það er því með öllu óréttmætt að slá slíku hér fram.

Eg skal svo ekki tala lengur um málið að sinni, og geri það heldur ekki að neinu kappsmáli, hvort frumv. er tekið út af dagskrá eða ekki, en eg sé enga þörf á því.