03.05.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1361 í B-deild Alþingistíðinda. (1662)

154. mál, lántökuheimild

Flutnm. (Magnús Blöndahl):

Það er rétt, sem háttv. tveir síðustu ræðumenn hafa tekið fram, að um þetta mál hefir ekki verið sagt eitt orð fyr en nú. Eg tók það þannig, að háttv. deild líti svo á, að frumvarpið mælti með sér sjálft, og að um það þyrfti því ekki að ræða.

Eg skal út af framkomnum ummælum leyfa mér að taka fram, að frv. þetta hefir verið borið fram eftir ósk hæstv. ráðh. (Kr. J.) að landssjóði væri veitt heimild til að taka þetta lán, ef á lægi.

Meiningin með þessari lántöku er sú, að báðar deildir alþingis hafa samþykt frumvarp til hafnarlaga fyrir Reykjavík og þar gert ráð fyrir fjárframlagi úr landssjóði að upphæð 400,000 krónur og til þess að geta greitt það fé þarf landssjóður ef til vill að taka lán.

Hvað hinni síðustu málsgrein frumvarpsins viðvíkur, að landssjóði sé heimilað að taka bráðabirgðarlán, þá skal eg geta þess, að eftir því sem mér er skýrt frá, koma ekki tekjur landsjóðs inn á vissum tímum og fyrir mun það hafa komið ekki allsjaldan, að peningaforðinn hefir verið mjög lítill, þótt ekki hafi bein vandræði af hlotist enn. Hins vegar getur oft staðið svo á, að lögboðnar útborganir verði að fara fram svo margar á skömmum tíma, að peningaforðinn ekki hrökkvi til og til að fyrirbyggja að nein vandræði geti hlotist af slíku, er þess óskað af stjórninni að fá heimild þingsins til slíkra bráðabirgðarlántöku, sem að sjálfsögðu ekki verður notuð, nema brýna nauðsyn beri til. Slíkar heimildir eru algengar meðal annara þjóða (?: hin svo nefndu Skatkammerbevis).