03.05.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1362 í B-deild Alþingistíðinda. (1663)

154. mál, lántökuheimild

Pétur Jónsson:

Það er eðlilegt, að menn séu hikandi og vilji hugsa sig tvisvar um lántökuheimild þessa, sérstaklega þegar horfurnar eru ekki betri en nú á að lánið fáist með góðum kjörum.

Eg skal leyfa mér að geta þess, að horfur nú eru ekki betri en 1903. Þá var stór halli á fjárhagsáætlun fjárlaganna og sá þingið sér þá ekki fært að skella á herðar stjórnarinnar framkvæmd fjárlaganna, án þess að hugsa fyrir nauðsynlegu fé. Var því stjórninni veitt heimild til að taka 500 þús. kr. lán. Nú mun tekjuhallinn verða eins hár og 1903, en á hinn bóginn eru handbærir peningar landssjóðs nú að líkindum engir, alt bundið í lánum, en þá var peningaforðinn með mesta móti. Þess vegna vil eg fyrir mitt leyti mæla með því, að

stjórninni sé veitt heimild til að taka lán, í stað þess að þurfa að skulda ár út og ár inn stórfé í hlaupareikning við ríkissjóð Dana, þótt það fengist sem óvíst er. Eg skil ekki í, að þeir sem kalla sig sérstaklega »Sjálfstæðismenn« uni við það. — En þetta er neyðarúrræði, sem hart er að lenda í, því eiginlega ætti aldrei lán að taka til annara fyrirtækja, en þeirra, sem beinan arð gefa af sér. En það er lítið af væntanlegum tekjuhalla fjárlaganna nú þannig til komið.