22.02.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 377 í B-deild Alþingistíðinda. (167)

10. mál, rannsókn bankamálsins

Lárus H. Bjarnason:

Eg skal ekki fara neitt út í það, sem þm. Strandamanna kallaði málsatriði, eða ræðu hans yfirleitt, því að það sem hann leggur til málanna er aldrei annað en slæm uppsuða af því sem aðrir hafa sagt. Annars er honum líkt varið og tómu tunnunum, tómu „uxahöfði“. Sé slegið á það, þá gefur það mikið hljóð, en annað en hljóð er það ekki. Ekki er eg háttv. þingmanni heldur reiður fyrir nafnið, sem hann auðsjáanlega vildi velja mér, en hafði ekki vit á að finna. Hann ætlaði auðheyrt að jafna mér til „þarfanauts“, og vita allir að það eru gagnsgripir. En ekki get eg svarað honum upp í sama lit. Við þarfa skepnu, eða þarfanaut get eg ekki kent hann. Honum verður að nægja að vera slétt og rétt naut, þó að honum sé svo tamt að breiða sig út yfir vitbrest annara.

Út í „vörn“ hans út af framkomu ráðh. í silfurbergsmálinu skal eg ekki fara fremur en út í aðrar varnartilraunir hans. Get þess að eins, að hann er þar tæpast óvilhallur dómari, þó að vit hefði meira, því að sagan segir, að hann hafi tekið við fleiri þúsundum króna fyrir einhver afskifti af því máli. Annars var nógu einkennilegt að heyra þingm. vera að burðast við að verja ráðherra, því að eg man ekki betur en eg sæi nafn hans sem flutningsmanns að vantraustsyfirlýsingunni til ráðherra hér í deildinni. Hann er líklega farinn að iðrast synda sinna og lætur þá vonandi strika sig út af þeim lista, enda furðaði eg mig á, að sjá nafn hans þar, svo fylgispakur sem hann hefir verið ráðherra og svo „gott skinn“ sem hann er sagður. „Zoon politicon“, politíska skepnu hefi eg aldrei talið hann, en eg hélt hann „zoon humanum“, mannskepnu, þangað til eg sá að hann beittist fyrir vantraustsyfirlýsing til ráðherra, þess mannsins, sem dregið hefir hann upp úr sorpinu. Nú sé eg hann er bara „zoon“, bara — skepna.